Framsókn

Þú sem ert haldinn barnagirnd, fáðu hjálp

Óðinn Svan skrifar

Einhvers staðar las ég að hver hefði sinn djöful að draga og það er líklega satt. Þessir djöflar eru þó misstórir og miserfiðir við að eiga. Suma djöfla fáum við við fæðingu en aðrir ná okkur á lífsleiðinni.

Sá allra versti er líklega sá þegar menn girnast börn. Þessi viðurstyggilegi djöfull hefur fengið nafnið pedófíll eða barnagirnd og mun fleiri draga þennan skratta með sér en okkur grunar. Rannsóknir hafa sýnt að allt að fimmtungur karlmanna laðist kynferðislega að börnum á einhvern hátt og um 2% þeirra laðast einungis að börnum. Hvort sem þessi tala sé rétt eða ekki er ljóst að mjög margir eru haldnir þessari girnd en það skal þó tekið fram að aðeins mjög lítill hluti þeirra brjóta af sér.

Síðustu vikur hafa mál þessara aðila verið mikið í umræðunni og hefur sú umræða einkennst af mikilli reiði og hatri. Ég skil þær tilfinningar vel enda víða pottur brotinn þegar kemur að þessum málefnum hér á landi. Eftirlit með þeim sem hafa þegar brotið af sér er lítið sem ekkert og fangelsisdómar vægir. Öll sú umræða er hinsvegar efni í annan pistil.

Nú þegar við sem samfélag erum orðin meðvituð um þennan vanda og hætt að þagga niður mál sem þessi hlýtur það að vera markmið okkar allra að koma í veg fyrir að þessir menn brjóti af sér. Fræðsla sem snýr að því hvernig forðast megi þessa menn og aðferðir þeirra eru af hinu góða en ég tel hinsvegar að við ættum að setja meiri fókus á að tækla málið frá sjónarhorni geranda.

Margir vilja meina að við séum ekki nægilega dugleg að taka þjóðir í kringum okkur til fyrirmyndar í því sem vel er gert. Það kann að vera rétt en í þessum málum held ég að við ættum að horfa til Þýskalands. Þar í landi stendur fólki sem haldið er barnagirnd til boða sálfræðimeðferð að kostnaðarlausu. Skjólstæðingum er heitið fullum trúnaði, jafnvel þótt þeir hafi þegar brotið gegn barni. Markmiðið er skýrt; að koma í veg fyrir að börn séu beitt kynferðisofbeldi. Aðferðin hefur gefist vel og fjölmargir nýtt sér þá aðstoð sem boðið er uppá.

Meðferðarúrræði á Íslandi eru vissulega til en mættu vera mun sýnilegri, aðgengilegri og fyriferðameiri í umræðunni um þessi mál. Það að kvarta yfir heilbrigðiskerfinu er fyrir löngu orðin þreytt tugga í íslensku samfélagi en þarna held ég að þeir sem fari með valdið mættu standa sig betur og auka fjárútgjöld til málaflokksins.

Að lokum vil ég hvetja þá sem ganga með þennan títtnefnda djöful, hvort sem þeir hafa brotið af sér eða ekki, að verða sér úti um aðstoð og fá hjálp, því þó svo að hún sé kannski ekki sýnileg þá er hún til.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó