NTC

118 verkefni á borð lögreglu um helgina

Í nógu að snúast hjá lögreglunni á Akureyri um helgina

Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði í nógu að snúast um helgina en mikill mannfjöldi var saman kominn á Akureyri í tengslum við snjóbretta- og tónlistarhátíðina AK Extreme, sem náði hápunkti með gámastökkinu í Gilinu í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni.

118 verkefni komu inn á borð lögreglu frá kl 18:00 á fimmtudegi og til kl 18:00 á sunnudegi.

Meðal þess sem kom upp á voru fjögur fíkniefnamál, skemmdarverk, ólöglegur vopnaburður, sturlunarástand vegna fíkniefnaneyslu og tvær líkamsárásir. Átta manns gistu fangageymslur á þessum þrem nóttum. Lögregla lagði hald á töluvert magn fíkniefna, bæði kannabis og harðari efna.

Þá voru ýmis umferðarlagabrot sem komu inn á borð lögreglu. Sex ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, þrír fyrir ölvunarakstur og þrír aðrir voru teknir undir stýri án ökuréttinda. Þá eru ótalin fjögur umferðaróhöpp, tvö þeirra án slysa að því er segir í tilkynningu lögreglu.

AK Extreme fór fram á Akureyri um helgina

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó