Tónskáldið og Akureyringurinn Atli Örvarsson heldur tónleika í Hofi þann 30. apríl næstkomandi. Atli hefur sannarlega gert það gott í tónlistinni erlendis en um þessar mundir semur hann alla tónlist fyrir NBC þættina Chicago Fire, Chicago PD og Chicago Med. Hann hefur einnig samið tónlistina í fjölmörgum myndum t.a.m. tónlistina í myndinni The Perfect man, sem var ein söluhæsta mynd í Bandaríkjunum 2015, sem og tónlistina í myndunum The Edge of Seventeen, Vantage Point og Hansel & Gretel, svo eitthvað sé nefnt.
Atli stundaði nám við Berklee háskólann, sem er einn af virtari skólum Bandaríkjanna, áður en hann hélt áfram í mastersnám við North Carolina School of the Arts. Ásamt því hefur hann unnið til fjölda verðlauna, hérlendis og erlendis.
Atli hefur verið fastur í tónlist frá unga aldri en eflaust kannast margir við hann frá hans yngri árum þegar hann spilaði í hljómsveitunum Stuðkompaníinu og Sálinni hans Jóns míns. Nú er hinsvegar komið að svokölluðum portretttónleikum Atla þar sem hann kemur til með að flytja tónlistina sína ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.
Fyrir nánari upplýsingar um tónleikana og miðasölu er hægt að ýta hér.
UMMÆLI