NTC

Skíðamót Íslands hefst í Hlíðarfjalli í dag

Hlíðarfjall

Í dag hefst Skíðamót Íslands 2017 sem fram fer í Hlíðarfjalli í ár og mun mótið standa fram á sunnudag. Er þetta í 78.skipti sem Skíðamót Íslands er haldið og verður nóg um að vera í fjallinu alla helgina.

Mótið verður sett við hátíðlega athöfn í Akureyrarkirkju í kvöld klukkan 20 en fyrsta keppni mótsins hefst klukkan 17 í dag þar sem keppt verður í sprettgöngu og má búast við miklum látum.

Ætla má að á fjórða hundrað manns sæki Akureyri heim um helgina vegna mótsins en keppendur eru um 80 talsins. Þó veðurguðirnir hafi ekki verið mjög hagstæðir skíðafólki að undanförnu eru aðstæður í Hlíðarfjalli góðar og má reikna með hörkukeppni.

Öflugasta skíðafólk landsins mætir til leiks

Keppt verður í alpagreinum og gönguskíðum og eru keppendur frá 16 ára aldri. Flest af öflugasta skíðafólki landsins keppir á mótinu og til að mynda mæta allir úr A-landsliði Íslands nema Akureyringurinn María Guðmundsdóttir sem glímir við meiðsli. Þar á meðal er Sturla Snær Snorrason sem vann til silfurverðlauna í undankeppni HM í stórsvigi fyrr í vetur.

Þá eru sjö erlendir keppendur í alpagreinum karlamegin sem koma víðsvegar að úr heiminum en meðal keppenda eru skíðakappar frá Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð og Lúxemborg.

Í skíðagöngu verður keppnin einnig hörð þar sem A-landsliðsmennirnir Brynjar Leó Kristinsson, Sturla Björn Einarsson og Sævar Birgisson eru á meðal keppenda en Snorri Einarsson er við keppni erlendis og verður því ekki með í ár. Elsa Guðrún Jónsdóttir verður einnig á meðal keppenda en hún sigraði undankeppni á HM fyrr í vetur.

Þá eru þrír erlendir keppendur í skíðagöngunni sem koma frá öllum heimshornum þar sem um er að ræða fólk frá Mexíkó, Marokkó og Noregi.

Áhugasamir hvattir til að mæta – Aðgengi gott

Keppt verður á tveimur mismunandi svæðum. Skíðaganga fer fram við skíðagöngusvæðið í Hlíðarfjalli. Keppni í alpagreinum fer fram við Strýtuna. Gott aðgengi er fyrir áhorfendur og er aðgangseyrir enginn þó vissulega þurfi að borga skv. gjaldskrá Hlíðarfjalls til að nýta sér lyftuaðstöðu o.fl.

Akureyringum gefst þar með kostur að fylgjast með besta skíðafólki landsins en alla dagskrá má nálgast hér að neðan. Veitingar eru seldar í skálum Hlíðarfjalls þar sem meðal annars verður boðið upp á gúllassúpu og bestu franskar á Akureyri að sögn mótshaldara.

 

Sambíó

UMMÆLI