Framsókn

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 5. Píanósnillingurinn

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 5. Píanósnillingurinn

Sífellt fjölgar í hópi Rauðakross-kvenna sem verða á vegi Grenndargralsins í tengslum við „rannsóknina“ á nótnahefti sópransöngkonunnar frá hernámsárunum. Heftið dúkkaði upp á Akureyri ekki alls fyrir löngu og fjölmargar spurningar vöknuðu í kjölfarið. Ég er kominn með nokkuð glögga mynd af heftinu og ég hef undir höndum upplýsingar um Ethel Hague Rea, sópransöngkonuna sem átti heftið og dvöl hennar á Íslandi. Aðalspurningunni er þó enn ósvarað – hvernig komst heftið til Akureyrar og í eigu Ingimars Eydal?

Samhliða lestri bókarinnar They sent me to Iceland eftir Jane Goodell, fletti ég gömlum dagblöðum á netinu. Ég rek augun í grein í Alþýðublaðinu frá júlí 1943 þar sem segir: „Einn af beztu yngri píanóleikurum Ameríku, Miss Kathryn Overstreet, dvelur nú hér á landi og ætlar að leika í ameríkska útvarpið á hverjum sunnudegi nokkrar næstu vikur. Hún er hér í þjónustu ameríkska rauða krossins og vinnur við eitt af skemmtiheimilum hans hér, eins og hinar stúlkurnar í gráu einkennisbúningunum.“ Mér finnst ég kannast við nafnið svo ég legg bókina hennar Goodell frá mér. Eitt augnablik hvarflar að mér að Overstreet tengist mögulega skemmtun sem ameríski Rauði krossinn hélt á Akureyri á hernámsárunum. Þannig var að ég rakst á frétt í gömlu blaði um skemmtunina síðastliðið sumar á meðan ég vann að gerð hlaðvarpsþátta um veru setuliðsins í Hlíðarfjalli og þóttist muna að þar hefði kona verið nefnd til sögunnar sem skemmtikraftur.

Ég finn upplýsingar um Kathryn Overstreet og hljómleika hennar fyrir setuliðsmenn á vegum ameríska Rauða krossins (ARC) og leiksýningar sem hún tók þátt í. Allt bendir til að hún hafi nær eingöngu skemmt setuliðinu og að Íslendingar hafi lítið sem ekkert notið píanóhæfileikanna fyrir utan flutning hennar í útvarpinu. Pínu bömmer. Ég er við það að missa veika von um geta tengt hana við nótnaheftið þegar ég rekst á fréttir um tvenna hljómleika hennar í Reykjavík í lok árs 1943. Það sem meira er, ég finn tilkynningu um að hún ætli sér að skemmta Akureyringum í upphafi nýs árs. Bingó. Tengingin komin.

Staðarblöð fjalla um tvenna hljómleika Kathryn Overstreet á Akureyri í janúar 1944 á vegum ARC og Tónlistarfélags Akureyrar. Fyrri hljómleikarnir í Samkomuhúsinu voru fyrir styrktarmeðlimi Tónlistarfélagsins og gesti þeirra. Degi síðar spilaði hún fyrir nemendur Gagnfræðaskólans og Menntaskólans.

Getur verið að nótnahefti og söngbók Ethel hafi komið til Akureyrar með Kathryn þegar hún kom hingað í ársbyrjun 1944 til að skemmta ungum sem öldnum? Já, klárlega er það möguleiki. Kathryn var píanóleikari og Ethel var söngkona. Þær störfuðu báðar hjá ARC í Reykjavík á þessum tíma. Ekki þarf að hafa mörg orð um mögulega notkun píanósnillingsins á nótnaheftinu á hljómleikunum á Akureyri. Svo virðist sem öll vötn renni til Dýrafjarðar.

Þá kemur skellurinn. Þegar ég rýni í tónsmíðarnar í nótnaheftinu sé ég að nær eingöngu er um sálma, þjóðræknislög og annað í þeim dúr að ræða. Ef marka má staðarblöðin var efnisskrá hljómleikanna helguð tónskáldum á borð við Bach, Chopin, Brahms, Debussy og Lizt svo einhverjir séu nefndir. Mér þykir þannig ólíklegt að nótnaheftið hafi nýst Overstreet á hljómleikunum hér á Akureyri þó vissulega sé ekki hægt að útiloka neitt í því sambandi.

Ég tek upp þráðinn þar sem frá var horfið í They sent me to Iceland og legg Kathryn Overstreet til hliðar. Allt virðist vera á réttri leið hjá þeim Rauðakross-konum í Reykjavík ef marka má bók Goodell. Fyrsta tómstundamiðstöðin á vegum ameríska Rauða krossins komin í gagnið og hugmyndir um að opna fleiri miðstöðvar. Fyrr en varir er ég farinn að lesa um ferð fjögurra Rauðakross-kvenna til Akureyrar. Leynist lausnin á ráðgátunni um nótnahefti sópransöngkonunnar kannski í bókinni hennar Jane Goodell?

Sjá einnig

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 3. Ethel

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 4. Íslandsdvölin

Framhald…

Kathryn Overstreet (1913 – 1963).

Heimildir:

Grenndargralið.

A. (1944, 6. janúar). Hljómleikar Miss Kathryn Overstreet. Dagur, bls. 7.

Goodell, J. (1943). They sent me to Iceland. Ives Washburn Inc.

Mrs. Kathryn Overstreet. (1943, 17. desember). Íslendingur, bls. 2.

Þekktur píanóleikari í ameríkska rauða krossinum hér. (1943, 17. júlí). Alþýðublaðið, bls. 2.

Mynd af Kathryn Overstreet: Fálkinn 49. tbl. 3.12. 1943. Skjáskot af bls. 3.

Sambíó

UMMÆLI