NTC

Já þetta er frétt!

Ingibjörg Bergmann skrifar.

Það eru svolítið breyttir tímar eftir að við stofnuðum Kaffið. Núna eru þessi small talks sem maður lendir í daglega farin að snúast úr því að tala um veðrið og hvað ég ætla að gera í lífinu eftir Háskólann (eins og fólki sé ekki alveg sama um þær upplýsingar, en það er efni í aðra grein) yfir í að ræða um Kaffið. Ég tek því yfirleitt fagnandi og það er alltaf gaman þegar að þessar kurteisislegu samræður eru farnar að snúast um eitthvað annað en tilgerðarlegt hjal sem báðir aðilar vona að ljúki sem fyrst.
Hinsvegar er það allskostar óþolandi þegar fólk fer að leggja manni línurnar um hvað við eigum að gera og hvað ekki. Vinalegar ábendingar eða hugmyndir að fréttum og þess háttar eru velkomnar ráðleggingar, en þegar fólk fer að setja sig í sérfræðingarstólinn þá hætti ég að hlusta.

Svo er það á netinu. Á Facebook og Twitter má finna alla sérfræðinga Akureyrar um fjölmiðla. Þetta er ekki fjölmiðill, þetta er ekki frétt, svona eiga fjölmiðlar ekki gera, skylda fjölmiðla er þessi o.s.frv.
Það er alveg hreint ótrúlegt hvað fólk veit mikið um hvað fjölmiðlar eiga að vera að gera og hvað ekki. Ég er að útskrifast (vonandi) í vor með þriggja ára B.A. nám í fjölmiðlafræði á bakinu og ég get ekki sagt að ég sé svona svakalega vel að mér um hvað fjölmiðlar eiga nákvæmlega að gera. Úr mínu námi og af minni reynslu síðustu árin get ég heilshugar dregið þá ályktun að enginn fjölmiðill á Íslandi fer eftir einhverri alþjóðlegri uppskrift. Það eru allir að gera sitt, eftir sinni eigin uppskrift, þó vissulega með siðareglur og þess háttar til hliðsjónar.

Auðvitað er það samt þessi draumafjölmiðill sem maður vill starfa á. Þar rýkur maður út og inn um allan bæ, með rillu í kjaftinum, að yfirheyra þennan og hinn og birta alveg þvílíkt vel skrifaðar og ígrundaðar fréttir sem afhjúpa skandala og skrímsli. Síðan fengi ég símtal á ensku frá höfuðpaur Pulitzer-blaðamannaverðlaunanna þar sem hann boðar mig út til að taka við verðlaunum fyrir bestu rannsóknarblaðamennskuna það árið. Ég tilkynni honum að ég komist því miður ekki, það er bara svo brjálað að gera að afhjúpa allskonar dót og skrifa merkilegar greinar.
Svo vakna ég og man skyndilega eftir því að ég er á Akureyri, á Íslandi og er heppin að komast í feitt einu sinni í mánuði.

Er þetta frétt?! Svarið er alltaf já. Ég held að sérfræðingarnir, kommentakerfisklíkan (virkir í athugasemdum) og almúginn átti sig ekki alveg á því hvað akademíska hugtakið um frétt sé vítt. Svo hugsa ég líka að sérfræðingarnir hafi heldur ekki hugmynd um hvernig það er að reka fjölmiðil sem er ekki ríkisrekinn eða með einhverja bakhjarla á bakvið sig. Sérfræðingarnir vilja líka halda því fram að fjölmiðlar eigi að skrifa fréttir og halda sig frá skemmtiefni sem dregur úr trúverðugleika þeirra. Þessir sérfræðingar eru svo í flestum tilfellum þeir sem opna alltaf bara skemmtiefnið en ekki harðari fréttirnar, til þess auðvitað að geta sýnt öllum hversu hámenntaðir þeir eru þegar þeir deila þessu á facebook og tala niður til þess sem það skrifaði.
Ef við tökum random dæmi: Kaffid.is er með bæði, fréttir og afþreyingarefni í bland. Skemmtiefnið er lesið u.þ.b. þrisvar sinnum meira en fréttirnar sem við leggjum mestu vinnuna í. Við erum nefnilega með nokkra sérfræðinga í okkar lesendahóp, sem eru aldrei lengi að deila áfram skemmtiefninu og segja okkur hvað þetta er skelfileg fréttamennska á meðan að þremur harðari fréttum þann sama dag er ekki deilt af sérfræðing, því hann las þær sennilega ekki. Ef til vill voru það mistök hjá okkur að treysta lesendum okkar fyrir því að greina á milli hverju skal taka sem fréttum og hverju skal taka sem afþreyingu.

Ætli það sé ekki ábyrgt að enda þetta á þeim nótum að öll gagnrýni er velkomin. Við tökum sumri gagnrýni alvarlega, annari hlægjum við að og óþroskaða gagnrýni hunsum við. Hér eru nokkur heilræði fyrir alla þá sem gerast sekir um hegðunina listaða í þessari grein:
Ef að þú ætlar að gagnrýna fjölmiðil fyrir það að birta grein sem þér finnst ekki skemmtileg, þá ráðlegg ég þér frekar að lesa hana ekki og deila frekar grein sem þér finnst skemmtileg eða þess þá heldur merkileg, ef þú ert jafn vel að þér og þú segist vera.
Ef þú ætlar að setja þig á háan hest, þá ráðlegg ég þér að vera viss um að þú missir ekki takið, dettir og meiðir þig.
Ef þú ætlar að titla þig sérfræðing um hvernig fjölmiðlar eiga að vera og hvað þeir eiga að gera, stofnaðu þinn eigin miðil eða þegiðu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó