Framsókn

Borgin mín – Rennes

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við fáum að heyra sögur af borgum víðsvegar í heiminum frá Akureyringum sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni segir Guðmundur Hólmar Helgason, landsliðsmaður í handbolta, okkur frá borginni Rennes í Frakklandi.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og afhverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég bý hér í Rennes, eða raunar í úthverfi Rennes, því að ég æfi og spila sem handboltamaður með handboltaliðinu Cesson Rennes Metropole handball sem hefur aðsetur hér.
Við fjölskyldum ákváðum að stökkva á tækifærið þegar það gafst fyrir mig að koma hingað að spila. Liðið bauð okkur að koma og skoða aðstæður áður en ég skrifaði undir og okkur leist mjög vel á bæinn og svo heillaði það mikið að prófa að búa í Frakklandi.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar

Við Herdís María, konan mín, eigum tvo stráka, einn sem varð fimm ára 20. mars og annan sem er að verða 2ja ára þann 9. apríl, og því þurfum við nokkuð stóra íbúð. Núna búum við í nýlegri 130 fermetra, 6 herbergja íbúð, í úthverfi Rennes sem heitir Cesson-Sévigné. Við völdum þessa staðsetningu þar sem það er hæfilega stutt á æfingar fyrir mig, skóla fyrir strákana og niður í miðbæ Rennes.

Leigan er töluvert ódýrari en á Íslandi, við vorum að borga um 80.000 kr meira á mánuði fyrir 90 fermetra íbúð í miðbæ Reykjavíkur áður en við fluttum út.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Nei, get ekki sagt það. Nauðsynjavörur eru almennt aðeins ódýrari hérna úti. Matarkarfan er nokkrum þúsund köllum ódýrari en heima ef verslað er í lággjaldaverslunum. Gífurlega þægilegt að versla, en við gerum nánast öll okkar matarinnkaup í búð sem heitir Leclerc. Þar verslar maður í rólegheitum heima hjá sér í tölvunni og sækir síðan vörurnar 3-4 tímum seinna í það útibú sem er næst manni. (Hljómar ekki eins og mikið en bíðið bara þangað til þið eignist börn, þá verður þetta toppurinn.)

Hérna úti er augljóslega töluvert meira úrval af skóm og fatnaði heldur en heima á Íslandi og hér má því gera mjög góð fata- og skókaup. Mamma er búin að koma þrisvar sinnum og kaupa einhver átta skópör og óteljandi flíkur. Sömu sögu má segja af veitingastöðum, Frakkinn er mikill sælkeri sem fer mikið út að borða, bæði í hádeginu og á kvöldin. Það er óskrifuð regla að þegar farið er út að borða þá færðu þér þriggja rétta (forrétt, aðalrétt og dessert) og helst smá vín/bjór með. Við förum reglulega út að borða og ég man sérstaklega vel eftir því að við fórum út að borða á nokkuð fínum asískum stað fljótlega eftir að við fluttum út, svipaður standard og Greifinn heima kannski. Vorum þrjú, fórum öll í þriggja rétta ásamt tveimur bjórum og einu hvítvínsglasi og það kostaði okkur rétt rúmlega 8400 kr.

Hver er frægustu kennileiti borgarinnar – helstu túristastaðirnir

Það er ekki neitt svakalegt flæði af túristum í Rennes sjálfri og þeir eru þá aðallega á ferðinni á sumrin. Saga Rennes er þó nokkuð skemmtileg. Borgin er höfuðborg Bretagne héraðsins í Frakklandi en Bretagne er svona eins og linari útgáfu af Katalóníu á Spáni. Heimamenn flagga mikið Bretagne fánanum frekar en þeim franska og grínast aðeins með að vilja verða sjálstæðir frá Frakklandi,

Helsta sem ég myndi mæla með að skoða í Rennes og þar í nágrenni er:

Mont saint Michel – 1 klst frá Rennes

Saint Malo – 45 min frá Rennes

Miðbær Rennes- Mikið af gömlum og flottum kirkjum, krúttlegum og gömlum götum sem minna svolítið á Diagon Alley úr Harry Potter.

Normandí og Omaha beach eru ekki það langt frá, hef reyndar ekki farið sjálfur en fyrir þá sem hafa áhuga á seinni heimsstyrjöldinni þá væri mjög gaman að skoða það svæði.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Vita líklegast flestir af þessum stað en hann er samt ekki auglýstur sem einhver túristastaður, það er „Rue de la soif“ eða þorstagatan. Það er eldgömul og skítug gata með slatta af krám og litlum veitingastöðum í miðbænum þar sem má sjá ansi skrautlega karaktera og þar getur skapast nokkuð góð stemning á kvöldin.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni

Það er asískur staður hérna í Cesson sem okkur finnst mjög góður sem heitir Le wok, mjög viðráðanlegur í verði og góður matur. Síðan höfum við verið nokkuð dugleg að fara á kaffihús í miðbænum, enda í Frakklandi og það besta er líklega chocolate chips cookes sem þeir gera og eru „little drops of heaven“.

Hvernig er tungumálið? Hvernig er það í samanburði við íslensku?

Franskan er ágæt, ég sé pínu eftir því núna að hafa farið í þýskuna í MA en ekki frönsku. Sérstaklega þar sem franskan var miklu auðveldari. Ég er núna í frönsku kennslu tvisvar í viku þannig maður fer vonandi að verða kominn með einhvern smá grunn. Það sem er erfiðast er eiginlega að skilja frakkann, þeir tala óheyrilega hratt og þetta rennur allt saman í einn graut.

Þeir eru að mestu með sama stafróf og íslenskan þannig það ákveðinn byrjunarreitur.

Varstu var við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Nei, get nú ekki sagt að það hafi verið neitt menningarsjokk því að mörgu leyti svipar menningu Frakkanna til okkar Íslendinga. Helsti munurinn liggur kannski í því að frakkar eru lang flestir kaþólikkar og eru almennt mjög trúaðir, á sunnudögum skal því hvílast og eru því flestar búðir og veitingastaðir lokaðir á sunnudögum. Það er svolítið annað en maður er vanur heima þar sem maður getur rölt inn í 10/11 korter í jól. Frakkanum líkar heldur ekkert sérstaklega við England og forðast það að tala ensku eins og heitan eldinn og í raun er það svo að fæstir hér kunna nema nokkur orð á enskri tungu, því lengra sem þú ferðast frá París, því verra verður það

Hvað einkennir heimamenn?

Hér í Rennes er ekkert svakalegt flæði túrista og því finnst mér það svolítið einkenna heimamenn hvað þeir eru ekta franskir. Kunna bara frönsku, keyra um á peugoet og lifa á baguette og andalifur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó