NTC

Ferðamönnum býðst nú beint myndsímtal frá Hofi í upplýsingamiðstöð SafeTravel


Ferðamönnum sem leið eiga um Akureyri gefst nú kostur á að tengjast upplýsingamiðstöð SafeTravel í Reykjavík í gegnum myndsíma sem settur hefur verið upp í upplýsingamiðstöð ferðamála í Menningarhúsinu Hofi. Búnaðurinn opnar ferðamönnum beint samband við starfsfólk SafeTravel sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af forvörnum og upplýsingagjöf til ferðamanna.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri hringdi fyrsta myndsímtalið til SafeTravel fyrr í dag og sagði við það tækifæri að með þessari nýju þjónustu væri verið að auðvelda ferðafólki á Akureyri að nálgast margvíslegar og mikilvægar upplýsingar með persónulegum hætti. „Það er mikilvægt að nýta alla valkosti til þess að hvetja ferðamenn til að afla sér upplýsinga sem lúta að þeirra eigin öryggi og með þessu geta þeir fengið upplýsingar beint í æð, um færð og ástand vega á landsvísu, veðurhorfur, sem og almennar upplýsingar um ferðamannastaði,“ sagði Ólöf í viðtali á akureyri.is

Þetta er í fyrsta skipti sem myndsímatæknin er notuð í upplýsingagjöf til ferðamanna hérlendis. Slysavarnafélagið Landsbjörg leiðir SafeTravel verkefnið og Smári Sigurðsson, formaður félagsins, segir þessa tækni auka upplýsingagjöf verkefnisins töluvert. „Nú getur ferðafólk hér á Akureyri komist í samband við sérfræðinga okkar hjá SafeTravel á einfaldan hátt og fengið, svo dæmi sé tekið, nákvæmar upplýsingar um ástand fjallvega, vatnsmagn í óbrúuðum ám og fleira sem björgunarsveitafólk í hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar miðlar stöðugt til upplýsingamiðstöðvar SafeTravel.“

Um 800.000 erlendir ferðamenn fengu upplýsingar og aðstoð frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg á síðasta ári gegnum SafeTravel. Um 500.000 manns heimsóttu vef SafeTravel, um 260.000 manns kynntu sér upplýsingar á bæklingum sem dreift var samkvæmt ýmsum leiðum. Verkefnið er með kynningar í flugvélum, í bílaleigubílum, 85 upplýsingaskjáum víða um land. Starfsfólk SafeTravel stendur vaktina allt árið um kring í upplýsingamiðstöð ferðamála í Reykjavík. Um 6 til 8.000 ferðamenn nýta sér þjónustu Hálendisvaktar Slysavarnafélagsins Landsbjargar á hverju sumri.

Sambíó

UMMÆLI