Nú er komin nokkur reynsla á beina flugið á milli Akureyrar og Keflavíkur og er óhætt að segja að það hafi mælst mjög vel fyrir. Það að geta flogið beint frá Akureyri og þurfa ekki að keyra suður og jafnvel bóka þar gistinótt, er til mikils hægðarauka fyrir Norðlendinga sem þurfa að komast utan.
Ari Fossdal stöðvarstjóri Flugfélags Íslands á Akureyri segir í samtali við Akureyri.is að bókunarstaðan sé mjög góð, morgunferðirnar hafi verið mjög vinsælar og fólk í viðskiptaerindum sem stökkva þurfi til útlanda með stuttum fyrirvara sé ákaflega ánægt með þennan kost.
„Uppistaðan af þeim sem nýta sér þetta nú þegar eru Íslendingar og svo útlendingar sem ferðast á eigin vegum og finna þetta flug í bókunarvélum. Við höfum ekki séð mikið af hópum frá erlendum ferðaheildsölum ennþá en eigum von á að markaðssetning okkar inn á þann markað eigi eftir að skila fleiri hópum á næsta ári. Ég vil líka ítreka að það skiptir ekki máli með hvaða flugfélagi flogið er frá Keflavík, allir geta bókað,“ sagði Ari Fossdal í spjalli við Akureyri.is.
UMMÆLI