Grenndargralinu bárust á dögunum tvær myndir með tölvupósti. Önnur er svarthvít með konu og tveimur karlmönnum, öll í einkennisbúningum. Hin er litmynd af, að því er virðist, forsíðu á gamalli bók. Með myndunum fylgdu skilaboð.
„Takk fyrir góð skrif og skemmtileg. Ástæða þess að ég set þessar myndir inn eru frásagnir af hernum og Hlíðarfjalli, þar var komið inn á söngkonur sem komu til að skemmta hermönnunum. Sú fyrri er af nótnahefti sem ég fann í dóti mannsins míns Ingimars Eydal. Það er margstimplað með Ethel Hague Rea, American red cross. Sannarlega hef ég velt fyrir mér hvaðan það hafi komist í mitt hús. Neðri myndin er af konu með þessu nafni, fann hana á netinu. Það er líklegast að einhver hafi gefið IE nótnabókina. Ef einhver telur sig eiga tilkall til bókarinnar, þætti mér gott að fá að vita um það. Það er ekki á henni ártal, útgáfustaður er Boston og ég hef fundið sópransöngkonu með þessu nafni á netinu sem söng í Boston árið 1918. Nú er spurningin, hefur þú í grúskinu um herinn hugsanlega rekist á þetta nafn? Með kveðju, Ásta Sigurðardóttir.“
Setuliðsmenn og skemmtikraftar á stríðstímum. Gömul nótnabók með stimplum sem leynd hvílir yfir. Akureyri og Hlíðarfjall. Gersemar í sögu og menningu heimabyggðar sem teygja sig alla leið til Boston. Forvitni Grenndargralsins er vakin.
Ýmsar spurningar vakna. Eftir því sem fleiri steinum er velt, verða spurningarnar fleiri. Svo ekki sé nú talað um sjálfan fundinn. Að Ásta skuli finna hlut í eigu eiginmanns síns – hins ástsæla tónlistarmanns Ingimars Eydal, tæpum 30 árum eftir lát hans, hlut sem hún kann engar útskýringar á hvernig lenti inn á heimili þeirra hjóna en má mögulega tengja við veru setuliðsins á Akureyri – er áhugaverður efniviður í sögu svo ekki sé meira sagt.
Hver skyldi sagan vera á bak við nótnahefti ameríska Rauða krossins? Hver var Ethel Hague Rea, líklegur eigandi heftisins og hvernig lenti það hjá Ingimari Eydal? Þetta eru spurningarnar sem Ásta leitar nú svara við. Grenndargralinu er ljúft og skylt að aðstoða við lausn ráðgátunnar um hið dularfulla nótnahefti óþekktu sópransöngkonunnar og hvernig það komst til Akureyrar og í hendur Ingimars Eydal.
Framhald…
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI