Þórsarar eru í afar vondum málum í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta eftir sautján stiga tap gegn KR í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær. Lokatölur 64-81 fyrir gestunum sem leiða nú einvígið 2-0 en sigra þarf þrjá leiki til að komast áfram í undanúrslit.
Þór byrjaði betur og leiddi leikinn allan fyrri hálfleikinn. Staðan í leikhléi 36-32 fyrir heimamenn en landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason fór mikinn og réðu KR-ingarnir ekkert við hann.
Í síðari hálfleik komust skyttur KR-inga hinsvegar í gang og þá var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda enda hafa KR-ingar á afar sterku liði að skipa og eru ríkjandi Íslands-, bikar- og deildarmeistarar.
Stigaskor Þórs: Tryggvi Snær Hlinason 20, Darrel Lewis 19, George Beamon 15/12 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 6, Ragnar Helgi Friðriksson 4.
Stigaskor KR: Jón Arnór Stefánsson 18, Brynjar Þór Björnsson 18, Pavel Ermolinskij 10/12 fráköst, Darri Hilmarsson 9, Sigurður Þorvaldsson 9, Philip Alawoya 9, Þórir Þorbjarnarson 4, Vilhjálmur Kári Jensson 2, Snorri Hrafnkelsson 2.
Liðin mætast á heimavelli KR næstkomandi þriðjudag og þar geta KR-ingar tryggt sér farseðil í undanúrslit.
UMMÆLI