Íslandsmeistaratitilinn gæti farið á loft í Skautahöll Akureyrar í kvöld þegar kvennalið Skautafélags Akureyrar, Ynjur og Ásynjur, mætast í öðrum leik úrslitaeinvígsins.
Ynjur, sem skipað er yngri leikmönnum SA, gerði sér lítið fyrir og vann reynsuboltana í Ásynjum í fyrsta leiknum sem fram fór síðastliðinn laugardag. Urðu lokatölur 6-4 fyrir Ynjum eftir hörkuleik.
Ynjur er skipað leikmönnum á aldursbilinu 13-20 ára en allir leikmenn Ásynja eru um tvítugt eða eldri.
Liðin hafa borið höfuð og herðar yfir stöllur sínar í Reykjavíkurliðunum í vetur en Ásynjur urðu deildarmeistarar og Ynjur komu næstar í öðru sæti. Lið Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins voru svo mörgum stigum á eftir.
Leikurinn hefst klukkan 19:30.
UMMÆLI