Þið vitið hvernig þetta er þegar maður gengur um kirkjugarða og les grafskriftir hinna látnu, þá stendur oft starfsheiti fyrir neðan nafn viðkomandi, líkt og hér hvílir Jón Jónsson skipstjóri eða Guðrún Jónsdóttir kennari. Þetta er auðvitað gert til að undirstrika framlag hins látna til lífsins, ekki hvað síst ef starfið hefur verið mjög samofið persónunni. Um daginn var ég stödd upp í kirkjugarði við jarðsetningu og varð á einhverjum tímapunkti litið á legstein sem stóð í næstu götu, á honum var nafn konu og fyrir neðan það stóð: Móðir.
Mér hlýnaði um hjartarætur við að sjá þetta, í raun var þessi sýn ákveðin prédikun út af fyrir sig. Ástvinir hafa augljóslega vitað hvað til hennar friðar heyrði. Að vera móðir er líka sannkallað ævistarf þótt enginn sé ráðningarsamningurinn, ekkert sumarfrí né launuð yfirvinna. Að vera móðir er að gefa hjarta sitt án skilyrða, að vera móðir er að skynja sína mestu hamingju í lífi annarrar manneskju, allt frá því að hún er barn og til eilífðar. Að vera móðir er í raun að hafa augu Guðs á annarri manneskju.
UMMÆLI