Samkvæmt upplýsingum sem Kaffið hefur undir höndum hefur Akureyrarbær tekið ákvörðun um að selja Rýmið/Dynheima, frekar en að tryggja að þar verði áframhaldandi liststarfsemi. Vitað er til þess að allavega einn hópur listamanna sótti um að taka húsið að sér með það að markmiði að þar yrði svipuð miðstöð sjálfstæðrar listsköpunar og Tjarnarbíó hefur verið í Reykjavík, auk þess sem fjölmennur hópur á facebook stóð fyrir undarskriftarlista um að Dynheimar yrðu gerðir aftur að tónlistar- og hljómsveitarhúsi.
Nú er ljóst að ekki getur orðið af því. Samkvæmt umdeildu skipulagi um Drottningarbrautarreit á einnig að byggja á reitnum við hliðina á Dynheimum. Í ljósi þess vakna spurningar um hvort að bærinn sjái sér leik á borði í sameiningu Dynheima og lóðarinnar við hliðina, hvað svo sem þeir ætlast fyrir með lóðina. Þó skal taka fram að ekki er búið að selja Dynheima heldur hefur einungis verið tekin ákvörðun um að það verði gert.
Sjá einnig: Kaffið fjallaði um málið síðasta haust þegar undirskriftalistinn fór í loftið. Fréttina má sjá hér.
UMMÆLI