Rúnar Eff -„Bjóst aldrei við að komast upp úr undanúrslitakvöldinu“

Rúnar Eff

Rúnar Eff Rúnarsson var fulltrúi Akureyringa í söngvakeppni sjónvarpsins í ár. Rúnar flutti lagið Mér við hlið og sló heldur betur í gegn. Hann komst alla leið í úrslitakvöldið en að lokum var það Svala Björgvinsdóttir sem sigraði keppnina með laginu Ég veit það.

 Rúnar var þó sáttur með úrslitin þegar Kaffið heyrði í honum hljóðið í kjölfar keppninnar. „Ég er nokkuð sáttur við þetta allt. Þó ég sé nú mikill keppnismaður þá satt best að segja bjóst ég aldrei við því að komast upp úr undanúrslitakvöldinu. Þetta er bara þannig lag, ekki ballaða en samt ekki nógu hresst til að dansa við það, yfirleitt komast þannig lög ekki mjög langt. Þannig að það kom skemmtilega á óvart að komast á úrslitakvöldið í laugardalshöllinni.“

Hann segir þáttökuna einnig hafa verið mjög reynsluríka. „Þetta er allt svo stórt í sniðum og ólíkt því sem maður er vanur. Þarna má ekkert klikka og undirbúningurinn er eftir því, langur og strangur.“

Það er nóg að gera hjá Rúnari þessa daga

 

En hvað var það skemmtilegasta við þáttökuna? „Ætli það hafi ekki bara verið að kynnast öllu þessu magnað fólki sem er í kringum keppnina, bæði hinum keppendunum og svo bara öllu starfólkinu sem leggur allt í að gera þetta eins vel og hugsast getur.

Aðspurður hvort að hann gæti hugsað sér að taka þátt aftur í söngvakeppninni segir Rúnar að hann gæti vel hugsað sér það einhverntímann. „En þetta er rosalega tímafrekt. Ég þyrfti alveg að hugsa mig vel um og skipuleggja mig vel ef ég tæki slaginn aftur. Ég er til að mynda búinn að vera meira og minna í Reykjavík undanfarinn einn og hálfan mánuð. Þegar ég var heima var ég fastur í tölvunni að svara tölvupóstum. Áreitið var alveg með ólíkindum, sérstaklega erlendis frá. Það er endalaust af eurovision tímaritum og vefsíðum sem senda sífellt á mann spurningar.“

 
Lagið Mér við hlið samdi Rúnar sjálfur og tileinkaði það eiginkonu sinni. Hann segir að næsta skref sé að taka því rólega og eyða tíma með henni og börnunum sínum. „Fjölskyldan hefur verið skilin svolítið útundan undanfarið og það langar mig að bæta upp. Svo ætla ég að fylgjast með Skautafélagi Akureyrar í úrslitunum í íshokkíinu. Svo er auðvitað áframhaldandi músík. Ég er mikið bókaður og það virðist vera að bæta í eftir þetta ævintýri. Svo er ég hugsanlega á leiðinni til Texas í Bandaríkjunum að spila á Country-hátíð í nóvember. Þar er ég tilnefndur til einhverra verðlauna, sem er alltaf skemmtilegt. Þetta kemur allt í ljós, það hefur lítill tími gefist til einhvers annars en söngvakeppninnar undanfarið.“
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó