NTC

Þórsarar völtuðu yfir Snæfellinga – Mæta KR

Sindri var frábær í kvöld.

Þórsarar gulltryggðu sætið í úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld þegar liðið vann afar öruggan heimasigur á Snæfelli, 89-62.

Þórsarar voru frekar lengi í gang en segja má að verkefnið hafi verið hálfgert formsatriði þar sem Snæfell er langlélegasta lið deildarinnar og hefur tapað öllum sínum leikjum í vetur.

Aðeins fimm stigum munaði á liðunum í leikhléi en í síðari hálfleik gáfu Þórsarar aðeins í og þá var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi lenda. Að lokum unnu Þórsarar 27 stiga sigur. Leikmenn sem lítið hafa fengið að spila í vetur fengu að spila síðustu mínútur leiksins.

Einn þeirra var hinn 15 ára gamli Júlíus Orri Ágústsson og stóð hann sig afar vel á þeim þrem mínútum sem hann spilaði. Þessi efnilegi leikstjórnandi skoraði tvö stig, gaf tvær stoðsendingar, tók eitt frákast og stal einum bolta. Alls sex framlagspunktar á aðeins þrem mínútum.

George Beamon var stigahæstur í liði Þórs með 30 stig en Sindri Davíðsson var valinn maður leiksins. Hann nýtti öll sín skot í leiknum, þar af voru þrjú þriggja stiga skot.

Stigaskor Þórs:  George Beamon 30, Sindri Davíðsson 13, Tryggvi Snær Hlinason 11/13 fráköst, Darrel Keith Lewis 10, Ingvi Rafn Ingvarsson 9, Ragnar Helgi Friðriksson 6/7 stoðsendingar, Einar Ómar Eyjólfsson 3, Arnór Jónsson 3, Þröstur Leó Jóhannsson 2, Júlíus Orri Ágústsson 2.

Stigaskor Snæfells: Árni Elmar Hrafnsson 15, Christian David Covile 14, Sveinn Arnar Davíðsson 10, Geir Elías Úlfur Helgason 7, Þorbergur Helgi Sæþórsson 5, Jón Páll Gunnarsson 4, Maciej Klimaszewski 4, Viktor Marínó Alexandersson 2, Andrée Fares Michelsson 1.

Smelltu hér til að skoða nánari tölfræði.

Úrslit kvöldsins þýða að Þórsarar munu mæta ríkjandi Íslandsmeisturum KR í 8-liða úrslitum og hefst einvígið næstkomandi miðvikudag.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó