NTC

Jonni Magg: Höfum komið sjálfum okkur á óvart

Jónatan Þór Magnússon, til hægri, er þjálfari KA/Þór.

Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA/Þór, var í viðtali við Gest frá Hæli í Sportþættinum Mánudagskvöld á Suðurland FM í gær.

Jónatan, eða Jonni eins og hann er jafnan kallaður, sneri aftur heim til Akureyrar síðasta sumar eftir að hafa þjálfað í Noregi við góðan orðstír og er óhætt að segja að hann byrji vel með KA/Þór því liðið trónir á toppi 1.deildar kvenna um þessar mundir.

,,Ég vissi ekki hvað ég hefði í höndunum. KA/Þór missti fullt af leikmönnum fyrir þetta tímabil. Það voru margar stelpur sem fóru suður í önnur lið, bæði vegna skóla og af öðrum ástæðum. Við vorum ansi þunnskipaðar þegar ég tók við síðasta sumar. Sem betur fer náðum við að draga á flot stelpur sem hafa reynslu en höfðu lagt skóna á hilluna,“ segir Jónatan og vísar þar í Mörthu Hermannsdóttur og Katrínu Vilhjálmsdóttur svo einhverjar séu nefndar.

Toppbaráttan í 1.deild kvenna er afar jöfn.

,,Við höfum komið sjálfum okkur örlítið á óvart, það verður að segjast alveg eins og er. Við erum sátt við að vera á toppnum en það er nóg af leikjum eftir svo það getur allt gerst,“ segir Jonni.

Eins og sjá má hér að ofan er toppbaráttan í 1.deildinni afar jöfn. Fjórar umferðir eru eftir af mótinu og í þrem síðustu umferðunum mætir KA/Þór ÍR, HK og Fjölni.

,,Þetta eru liðin þrjú sem var spáð fyrir ofan okkur. Þetta verður rosalega skemmtilegt. Það er talsverður munur á efstu deild og 1.deild og liðin sem fara upp þurfa að styrkja sinn hóp,“ segir Jonni.

Hægt er að hlusta á viðtal Gests við Jónatan í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Sambíó

UMMÆLI