Framsókn

Tvær sýningar opnaðar í Listasafninu um helgina

Nóg um að vera í Listasafninu um helgina.

Það verður nóg um að vera í Listasafni Akureyrar um helgina þar sem tveir listamenn munu opna sýningar sínar samtímis á morgun, laugardag, klukkan 15.

Annars vegar er um að ræða sýningu Einars Fals Ingólfssonar sem nefnist Griðastaðir. Sýningin Griðastaðir er úrval ljósmyndaverka úr fjórum tengdum seríum sem Einar Falur hefur unnið að á undanförnum áratug. Í verkunum tekst Einar Falur á við manninn og íslenska náttúru; við náttúruöflin, hvernig mennirnir reyna að lifa í og með náttúrunni, laga hana að þörfum sínum, verjast henni á stundum en jafnframt leita í henni skjóls.

Ljósmyndaverk Einars Fals hafa á undanförnum árum verið sýnd á einka- og samsýningum í söfnum og sýningarsölum á Íslandi, á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Einar Falur er með BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MFA-gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York. Hann starfar sem myndlistarmaður, rithöfundur og blaðamaður.

Hinsvegar er um að ræða sýningu Sigtryggs Bjarna Baldurssonar, 360 dagar og málverk. Ljósmyndaverkið 360 dagar í Grasagarðinum var upphaflega unnið fyrir Listvinafélag Hallgrímskirkju. Kveikjan að verkinu er ævi og örlög Hallgríms Péturssonar, en það hefur þó mun víðtækari skírskotanir. Verkið samanstendur af um 80 ljósmyndum teknum á 360 daga tímabili í litlum skrúðgarði í Brighton á Englandi og fjallar um hringrás efnis í lífríkinu og þá eilífð og endurnýjun sem skynja má í henni.

Sigtryggur Bjarni er Akureyringur sem stundað hefur myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og í Frakklandi. Verk hans má finna í öllum helstu listasöfnum landsins.

Báðar sýningarnar verða opnar til 16.apríl næstkomandi og er aðgangur ókeypis.

Einar Falur Ingólfsson: Við Vogaafleggjarann, 2007. Úr myndröðinni Reykjanesbrautinl.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó