Knattspyrnumaðurinn Daníel Hafsteinsson hefur gert þriggja ára samning við knattspyrnudeild KA á Akureyri. Daníel er uppalinn KA-maður en hann hefur undanfarið leikið með liði Helsingborg í Svíþjóð.
„Danna þarf ekki að kynna fyrir KA-fólki enda uppalinn á KA-vellinum og verður virkilega gaman að fá hann aftur heim og sjá hann klæðast gulu treyjunni á nýjan leik,“ segir í tilkynningu frá KA.
Daníel hefur spilað 45 leiki fyrir KA og skorað í þeim 5 mörk. Eftir sumarið 2019 gekk hann til liðs við Helsingborg en síðasta sumar lék hann á láni hjá FH í Pepsi Max deildinni. Hjá FH spilaði Daníel 13 leiki og skoraði 4 mörk.
UMMÆLI