70 börn og unglingar flytja Bláa Hnöttinn í Hofi

70 börn og unglingar flytja Bláa Hnöttinn í Hofi

Miðvikudaginn 20. nóvember kl. 18 munu Barnakórar Akureyrarkirkju, Barna- og Æskulýðskór Glerárkirkju og Ungmennakór Akureyrar í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri flytja ævintýrið um Bláa hnöttinn í Hofi. Dagurinn er jafnframt alþjóðlegur dagur barna og 30 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í kórunum syngja 70 börn og unglingar og hafa æfingar staðið yfir í allt haust. Með kórunum leikur hljómsveit skipuð nemendum úr Tónlistarskólanum á Akureyri undir stjórn Stefáns Ingólfssonar. Hljóðfæraleikararnir eru Áslaug María Stephensen trommuleikari, Óskar Máni Davíðsson bassaleikari, Hrefna Logadóttir gítarleikari og Agnes Gísladóttir píanóleikari. Leikstjóri og sögumaður er Ívar Helgason en hann mun jafnframt bregða sér í gervi Gleði-glaums sem kom fljúgandi á Bláa hnöttinn í geimfarinu sínu og hélt uppi stanslausu stuði gegn því að börnin á bláa hnettinum borguðu honum í æsku.

,,Blái hnötturinn er mikilvægt og hugmyndaríkt ævintýri, þar sem brýnt er fyrir fólki að sýna réttlæti og mannúð og um leið er það viðvörun að hlaupa ekki eftir innantómu stuði,“ segir í tilkynningu. Síðast en ekki síst er það ábending um að varðveita æskuna í sjálfum sér. Tónlistin er eftir Kristjönu Stefánsdóttur og textarnir eftir Berg Þór Ingólfsson.

Kórstjórarnir Margrét Árnadóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir standa fyrir herlegheitunum. Barnamenningarsjóður og fræðsluráð Akureyrarbæjar hafa stutt verkefnið.

Það verður stuð í Hofi þann 20. nóvember. Miðasala stendur yfir á mak.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó