Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur veitt 28 félagasamtökum styrki upp á samtals 55 milljónir króna sem lið í því að auka þjónustu við viðkvæma hópa sem verða fyrir áhrifum vegna COVID-19 faraldursins. Félagasamtökin veita mikilvæga þjónustu til ýmissa hópa í samfélaginu og eru styrkirnir ætlaðir til að aðstoða samtökin í að bregðast við auknu álagi í kjölfar COVID-19 faraldurins og styðja betur við skjólstæðinga sína almennt.
Félagasamtökin sem hljóta styrki eru: Aflið Akureyri, ADHD samtökin, Alzheimersamtökin, Barnaheill, Bergið, Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð, Drekaslóð, Fjölskylduhjálp, Foreldrahús, Geðhjálp, Grófin geðverndarmistöð á Akureyri, Heimilisfriður, Hjálparastarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, Hlutverkasetur, Hugarafl, Höndin, Kvennaathvarfið, Landsamband eldri borgara, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Píeta, Stígamót, Umhyggja – félag langveikra barna , UNICEF, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið.
COVID-19 faraldurinn hefur raskað lífi fólks um allan heim og nauðsynlegar sóttvarnaraðgerðir hafa, þrátt fyrir mikilvægi sitt, raskað rútínu og stuðningskerfi margra viðkvæmra hópa. Álag og streita sem getur skapast í tengslum við samkomubann, efnahagslegar áskoranir og takmarkaðra aðgengi að stuðningskerfum getur skapað aukna hættu fyrir viðkvæma hópa samfélagsins. Félagasamtökin sem hljóta þessa styrki gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu við viðkvæma hópa og markmiðið með styrkveitingunni er að gera samtökin betur í stakk búin til að veita skjólstæðingum sínum stuðning og ráðgjöf.
„Það er er aukið álag á samfélaginu öllu um þessar mundirog þá ekki síst hjá viðkvæmum hópum samfélagsins. Kvíði og streita getur aukist í tengslum við samkomubann, efnahagslegar áskoranir og minna aðgengi að stuðnings- og þjónustukerfum, og við vitum að félagasamtök gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki þegar kemur að þjónustu við marga viðkvæma hópa. Við viljum tryggja það að þau geti haldið sínu góða starfi áfram á þessum krefjandi tímum, enda eru þau mikilvægur hlekkur í keðjunni,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra
UMMÆLI