NTC

400 manns sóttu opið hús í Háskólanum

Sean Scully efnafræðingur sprengdi í hátíðarsal Háskólans.

Rúmlega 400 manns sóttu opið hús í Háskólanum á Akureyri á sunnudaginn var. Tilefnið var 30 ára afmæli skólans en allt árið hafa verið haldnir viðburðir sem miða að því að tengja háskólann enn betur við nærsamfélagið. Auk kynninga á námsframboði var hægt að búa til slím og reyna sig í þrautabraut. Einnig var í boði að kynnast notkun snjalltækja í námi og starfi, fara í annan heim í sýndarveruleika og sjá sprengjusýningu, svo eitthvað sé nefnt.

Þá hélt Erlendur Bogason kafari sýningu á undraheimum sjávarins og hægt var að mæla sig við inntökuskilyrðin í starfsnám í lögreglufræði. Allan daginn streymdi fólk að og naut veðurblíðunnar með afmælisköku og kaffi undir beru lofti.
Eyjólfur Guðmundsson rektor segir að rauði þráðurinn í afmælisárinu hafi verið sá að opna háskólann enn betur fyrir samfélaginu. „Ég var mjög glaður yfir því að sjá þann mikla fjölda fjölskyldufólks sem heimsótti okkur á opna húsinu. Í barnahópnum er örugglega að finna fjöldann allan af framtíðarnemendum okkar,“ segir Eyjólfur.

Krakkar mældu sig við inntökuskilyrði í starfsnám lögreglu.

Um morguninn var hátíðardagskrá þar sem Sigrún Stefánsdóttir, formaður afmælisnefndar, bauð gesti velkomna. Tove Bull, fyrrverandi rektor háskólans í Tromsö, hélt hátíðarræðu en einnig tóku til máls Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra, Ketill Sigurður Jóelsson og Birna Heiðarsdóttir, núverandi nemendur, Ásdís Jóndóttir, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis, Brynhildur Pétursdóttir, formaður Góðvina, auk þess sem Eyjólfur Guðmundsson rektor fjallaði um framtíð Háskólans á Akureyri. Meðal gesta var Ingvar Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem átti sinn þátt í því að háskólinn var stofnaður.

Sjálfur afmælisdagurinn er 5. september en dagskrá dagsins er alfarið í höndum nemenda. Um morguninn verður Íslandsklukkunni á háskólasvæðinu hringt 30 sinnum en eftir hádegi gefst almenningi tækifæri á að hlýða á niðurstöður úr samræðuþingi nemenda og starfsfólks um framtíðarsýn ungs fólks. Öllum er velkomið að koma og hlýða á niðurstöður kl. 13.00 í hátíðarsal.

Sambíó

UMMÆLI