Á fimmtudaginn var undirrituð viljayfirlýsing Akureyrarbæjar og Brynju leigufélags ses. um uppbyggingu á íbúðum öryrkja á Akureyri 2022 til 2026. Þetta kemur fram á vef bæjarins.
Brynja á nú þegar 42 íbúðir í bænum sem leigðar eru einstaklingum eða Akureyrarbæ í tengslum við rekstur á íbúðaúrræðum fyrir öryrkja. Stefnt er að því að teknar verði í notkun 32 nýjar íbúðir á árunum 2022 til 2026, eða sex til sjö íbúðir að meðaltali á ári.
Áætlað umfang verkefnisins er um 280 milljónir króna á ári á þessu fimm ára tímabili. Á vef bæjarins segir að það myndi koma verulega til móts við þarfir öryrkja sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði á Akureyri, bæði hjá Akureyrarbæ og Brynju.
„Akureyrarbær og Brynja haft átt gott samstarf um úthlutun þeirra íbúða sem eru í eigu Brynju á Akureyri. Aðilar eru sammála um að formgera þetta samstarf enn frekar og binda í samstarfssamning þar sem skuldbindingar hvors aðila um sig eru betur skilgreindar og skýrðar. Viðræður á þessum grunni eru hafnar og skal þeim lokið eigi síðar en 15. október 2022,“ segir á vef bæjarins.
UMMÆLI