NTC

2,8 milljörðum króna úthlutað til uppbyggingar á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands


Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu á dögunum um úthlutun á ríflega 2,8 milljörðum króna til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og öðrum ferðamannastöðum. Annars vegar er um að ræða 722 milljóna króna úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2018 og hins vegar tæplega 2,1 milljarða króna úthlutun vegna þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2018-2020.

Sérstök áhersla á fjölgun viðkomustaða
Þetta er í fyrsta sinn sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkir ekki ferðamannastaði í eigu ríkisins og er það í samræmi við breytta löggjöf um sjóðinn. Alls hljóta 56 staðir styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Sérstök áhersla er lögð á að fjölga viðkomustöðum ferðamanna til að stuðla að því að álag minnki á fjölsóttum stöðum og lýtur 21 verkefni að þessu markmiði.

Þriggja ára landáætlun um uppbyggingu innviða
Nú var í fyrsta sinn úthlutað vegna þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2018 – 2020. Verkefnaáætlunin tekur m.a. til friðlýstra svæða og fjölsóttra staða í eigu íslenska ríkisins, valinna svæða sveitarfélaga auk landvörslu. Þá er fé veitt til óstaðbundinna áhersluverkefna. Alls er fjármagni veitt á 71 stað og eina gönguleið til fjölbreyttra verkefna, með sérstaka áherslu á náttúruvernd, minjavernd, bætt öryggi, sem og bætta aðstöðu fyrir gesti á þessu stöðum. Hér að neðan má sjá þau sveitarfélög á Norðurlandi sem hljóta styrki en auk þeirra eru einnig fyrirtæki, áhugamannafélög, landeigendur og fleiri sem fá fjárveitingu. Hægt er að lesa nánar um úthlutunina inn á heimasíðu ferðamálastofunnar.

 

Blönduósbær – Hrútey, gamla Blöndubrúin frá 1897 gerð að göngubrú.
Kr. 32.000.000 .- styrkur til að nota gömlu Blöndubrúna frá 1897 sem göngubrú út í Hrútey og bæta þannig aðgengi að eyjunni og varðveita samtímis elsta samgöngumannvirki á Íslandi. Í þessum 1. áfanga verður brúin sett á sinn stað, gerðir stígar og bílastæði við aðkomu. Hrútey er í eigu Blönduósbæjar og hefur verið samstarf við Skógræktarfélag A-Hún. um opin skóg í eyjunni.

Grýtubakkahreppur – Þar sem vegurinn endar.
Kr. 27.044.400.- styrkurinn felst í gerð fallegs áningarstaðar þar sem vegurinn endar við ysta haf og útsýni er hvað fallegast. Gert er ráð fyrir að áningarstaðurinn verði við hlið útgerðarminjasafnsins á Grenivík. Gerð verða bílastæði, settar upp snyrtingar, bekkir, útsýnisskífa og steinlagt fallegt svæði með lítilli tjörn.

Dalvíkurbyggð – Áningarstaður við Hrísatjörn.
Kr. 45.391.400.- styrkur til áframhaldandi uppbyggingar í friðlandi Svarfdæla og til að gera áningarstað við Hrísatjörn. Áningarstaðurinn er ætlaður til að auka aðgengi ferðamanna að þessu fuglaskoðunarsvæði auk þess sem þar verður þrívíddarkort af sveitarfélaginu með helstu kennileitum. Áningarstaðurinn er því ætlaður til verndar á svæðinu, til að bæta aðgengi og til fróðleiks fyrir ferðamenn.

Húnavatnshreppur – Þrístapar, aðkomusvæði, bílastæði, stígagerð, fræðsluskilti.
Kr. 57.000.000.- styrkur til að gera svæðið öruggt og aðgengilegt fyrir ferðamenn, útbúa bílastæði og göngustíg að aftökustaðnum að Þrístapa ásamt svæði með upplýsingaskiltum og fræðslu. Höggstokkurinn og öxin eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands en minningarsteinn er á staðnum.

Húnaþing vestra – Kolugljúfur – bætt aðgengi og öryggi framhald.
Kr. 1.600.000.- styrkur til að bæta aðgengis- og öryggismál á viðkvæmu og hættulegu svæði sem er umhverfis gljúfrin. Markmið verkefnisins er að byggja upp fyrsta hluta göngustíga með nauðsynlegum búnaði í samræmi við nýsamþykkt deiliskipulag.

Norðurþing – Bifröst- göngubrú að Heimskautsgerði.
Kr. 22.500.000.- styrkur til að byggja brú frá bílastæði að Heimskautagerðinu. Brúin Bifröst er hugsuð og hönnuð til að efla upplifun ferðafólks ásamt því að vernda náttúru svæðisins fyrir frekari ágangi.

Skagabyggð – Kálfshamarsvík sem áfangastaður.
Kr. 2.700.000.- styrkur til gerðar í deiliskipulag og hönnunar til uppbyggingar göngustíga. Kálfshamarsvík hefur allt til að bera til að verða mikilvægur ferðamannastaður á frekar fásóttum Skaganum.

Skútustaðahreppur – Gönguleið og fræðsluskilti í Höfða í Mývatnssveit: aðgengi fyrir alla.
Kr. 9.057.491.- styrkur til að endurgera og bæta ferðamannastaðinn Höfða í Mývatnssveit. Tilgangurinn er að efla áningarstaðinn með aðgengi fyrir alla og sjálfbærni að leiðarljósi, auka aðdráttarafl utan háannatíma og létta á nærliggjandi ferðamannastöðum. Vel undirbúið verkefni

Þingeyjarsveit – Endurbætur á umhverfi Goðafoss.
Kr. 74.000.000.- styrkur til að bæta aðgengi og auka öryggi ferðamanna, auk þess að vernda umhverfi Goðafoss. Verkefninu er að mestu lokið austan Skjálfandafljóts en nú er lögð áhersla á framkvæmdir vestan fljótsins, þ.e. gerð bílastæðis, útsýnispalls, göngustíga, upplýsingaskilta og fleira.

Greinin birtist upphaflega í Norðurlandi 27. mars.

Sambíó

UMMÆLI