NTC

Fátt sem getur komið í veg fyrir að framkvæmdum á nýjum kirkjutröppum ljúki fyrir árslok

Fátt sem getur komið í veg fyrir að framkvæmdum á nýjum kirkjutröppum ljúki fyrir árslok

Miklar og ófyrirséðar tafir hafa orðið á vinnu við nýjar kirkjutröppur á Akureyri en nú er fátt sem getur komið í veg fyrir að framkvæmdum ljúki fyrir árslok. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

„Það sem helst hefur tafið fyrir verkinu eru miklar lekaskemmdir sem komu í ljós í veggjum og þaki undir gömlu tröppunum þar sem áður voru almenningssalerni. Þannig hafa tímamörk hjá þeim sem að verkinu koma riðlast og víxlverkun einstakra verkþátta leitt til enn frekari tafa,“ segir í tilkynningunni.

Til að tryggja framgang verksins hefur nú verið tjaldað yfir þann hluta þar sem framkvæmdir standa yfir hverju sinni og er sá hluti upphitaður. Iðnaðarmenn munu á næstu dögum og vikum fikra sig smám saman upp að kirkjunni sjálfri þar til verkinu lýkur.

„Kirkjutröppurnar eru stór hluti af bæjarmynd Akureyrar og Akureyrarkirkja eitt helsta kennileiti bæjarins. Það er því til mikils að vinna að þetta svæði fái notið sín sem best. Bæjarbúum er þökkuð sú biðlund og sá skilningur sem þeir hafa sýnt framkvæmdaaðilum sem mætt hafa ófyrirséðum hindrunum við að ljúka endurbótum á kirkjutröppunum samkvæmt upphaflegri tímaáætlun. Telja má víst að þegar upp verður staðið verði nýjar kirkjutröppur hin mesta bæjarprýði og stolt fólksins sem bæinn byggir.“

Nánari umfjöllun og fleiri myndir má sjá á vef Akureyrarbæjar með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó