Aðsókn í Sundlaug Akureyrar hefur aukist gífurlega eftir að nýjar rennibrautir voru teknar í notkun. Framkvæmdum við sundlaugina er nú lokið en þær hafa staðið yfir í tvö ár. Aðsóknin hefur aukist um tæp 18% ef horft er til sama tíma ársins í fyrra en langmestur munur er á sumarmánuðunum. T.a.m. er 46% aukning í júní í samanburði við fyrra ár.
60.000 gestir í júlí
Júlímánuður var sérstaklega vinsæll í sumar þar sem að jafnaði 2.000 gestir heimsóttu sundlaugina á dag. Elín Gísladóttir, forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar, segir þetta vera met frá því að laugin var opnuð. „Þetta eru alls um 60 þúsund gestir í júlí og líklegt þykir að heildartala gesta yfir allt árið fari yfir 400 þúsund. Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Við höfum gott starfsfólk sem hefur unnið vinnuna sína með jákvæðni að leiðarljósi og það hjálpar alltaf. Þessi framkvæmd á eftir að vera aðdráttarafl fyrir bæinn um ókomna framtíð,” segir Elín, fullviss um að ekki væri hægt að anna auknum gestafjölda nema með frábæru teymi starfsfólks.
Ekki bara rennibrautir
Framkvæmdirnar við Sundlaug Akureyrar eru ekki ekki eingöngu bundnar nýjum glæsilegum rennibrautum, heldur hafa margar fleiri breytingar verið gerðar. T.a.m. er kominn nýr kaldur pottur sem hefur vakið mikla lukku. Einnig er glænýr heitur pottur en hluti hans er nuddpottur með gríðarlega öflugu og góðu nuddi. Nýtt sólbaðs- og leiksvæði hefur verið mjög vinsælt og vel nýtt á sólríkum dögum í sumar.
„Við erum ákaflega ánægð með þessar viðbætur og það sama heyri ég frá gestum okkar,“ segir Elín.
Klefaaðstaðan sprungin – Of fáir skápar og sturtur
Með gríðarlegri aukningu í aðsókn er enn ýmislegt sem þarf að bæta og má þar nefna að talsverð bið hefur skapast í sumar eftir skápum og sturtum. Elín segir að í haust sé stefnt á að skipta um lásakerfi í búningsskápum en í vor kom í ljós að ekki var lengur hægt að fá nýja lykla í það lásakerfi sem er í notkun núna. Af þeim sökum hefur vantað lykla í fjölda skápa í sumar og því enn færri skápar til notkunar fyrir þann fjölda gesta sem nú sækir Sundlaug Akureyrar. „Klefaaðstaðan er sprungin, því verður ekki neitað. Aukin aðsókn kallar á fleiri skápa og sturtur en við höfum í dag og því aðkallandi að skoða hvaða möguleikar eru til að bæta þar úr. Þegar lásakerfinu verður skipt út í haust munum við afleggja alla lykla en taka í staðinn upp fjögurra stafa pin-númer sem viðskiptavinir velja sér sjálfir,“ segir Elín og er vongóð um að það muni að minnsta kosti auka eftirspurn að einhverju leyti að hafa aðgang að öllum skápum.
Stefna á að loka eldra laugarkerinu tímabundið
Enn er ýmislegt sem þarf að gera í Sundlauginni og næst stendur til að skipta um dúk og flísar á bökkum eldra laugarkersins. Þar er dúkurinn orðinn mjög harður og sprunginn svo laugin er farin að leka. „Sundlaugar eru viðhaldsfrek mannvirki og alltaf eitthvað sem þarf að bæta og laga. Þetta mun kosta það að loka þarf lauginni í nokkurn tíma og við þurfum að biðja gesti okkar um að sýna okkur tillitssemi meðan á viðgerð stendur,“ segir Elín en laugin er mikið notuð og mun lokunin koma til með að þrengja mjög að aðstöðu fyrir gesti og nemendur sem sækja skólasund í sundlaugina.
Sundlaugargarðurinn opinn á ný
Sundlaugargarðurinn var opnaður á ný eftir endurbætur og framkvæmdir um miðjan júlí. Þar hefur verið reist leiksvæði fyrir börn með grænu svæði þar sem er gervigras fyrir leiki, tveir ærslabelgir, bæði fyrir yngri og eldri börn, og fleiri leiktæki. Einnig er sólbaðsaðstaða þegar sólin skín til að nýta góða veðrið. Framkvæmdin kostaði í kringum 100 milljónir en stærstur hluti þeirrar upphæðar fór í girðinguna sem sett var í kringum allt svæðið. „Aðsóknin hefur verið nokkur í sundlaugargarðinn og við sjáum að nýju ærslabelgirnir eru vinsælir en garðurinn hefur alltaf haft mikið aðdráttarafl,“ segir Elín um enduropnun sundlaugargarðsins.
UMMÆLI