17. júní fagnað á Akureyri

Mynd: Akureyri.is

Það verður blásið í lúðra og sungið hæ hó jibbí jei þegar þjóðhátíðardeginum 17. júní verður fagnað á  Akureyri með hefðbundinni dagskrá sem hefst klukkan 13 í Lystigarðinum. Þar mun Lúðrasveit Akureyrar leika undir stjórn Ellu Völu Ármannsdóttur, séra Guðrún Eggertsdóttur sjúkrahúsprestur flytur hugvekju, Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar flytur ávarp, Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots og einnig kemur drengjakórinn Appleton frá Winsconsin fram. Tveir af sigurvegurum úr Stóru upplestrarkeppninni lesa ljóð eftir Davíð Stefánsson, eitt bæjarskáldanna.

Skrúðganga leggur af stað úr Lystigarðinum klukkan 13.45 og verður gengið inn á Ráðhústorg þar sem fjölskyldudagskrá undir stjórn Skátafélagsins Klakks hefst klukkan 14 og mun Leikhópurinn Lotta stjórna dagskránni. Auk fastra liða, s.s. ræðu fjallkonu og nýstúdents, koma fram norðlensku tónlistarkonurnar Lára Sóley Jóhannsdóttir, Þórhildur Örvarsdóttir og Helga Kvam, tvíeikið unga Egill og Eik, það verða dansatriði frá Steps dancecenter og júróvisjónfararnir Friðrik Ómar og Regína koma fram. Einnig verður hægt að taka þátt í skátatívolí á Landsbankaplaninu frá kl. 14-17.

Kvölddagskráin hefst kl. 20 með skátakvöldvöku í Skátagilinu og á sviði koma fram Sindri Snær, Eyþór Ingi og Birkir Blær, Valgerður Þorsteinsdóttir, Kristín Tómasdóttir og Sigurður Sveinn Jónsson, Magni Ásgeirs og Rúnar Eff og hljómsveit slá botninn í dagskrána. Ekki má gleyma nýstúdentum frá Menntaskólanum á Akureyri sem fagna á Ráðhústorgi kl. 23.20.

Af annarri dagskrá á 17. júní má nefna boðssigling með Húna kl. 16.30 og er siglt frá Torfunefsbryggju. Leikhópurinn Lotta verður með sýningar kl. 11 og 17 í Lystigarðinum og verður Ljóti andarunginn, glænýtt íslenskt leikrit sýnt og Bílasýning Bílaklúbbs Akureyrar stendur yfir kl. 10-18 í Boganum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó