130 nemendur úr grunnskólum bæjarins eru með rafíþróttir sem valgrein. Rafíþróttadeild Þórs sér um kennsluna. Þetta kemur fram á vef thorsport.is.
„Segja má með sanni segja að það hafi verið brotið blað í sögu Þórs í dag en þá tók Rafíþróttadeildin á móti fyrstu nemendunum í íþróttavali. Ein af velgreinum fyrir krakka í 8.-10. bekk eru rafíþróttir í umsjón rafíþróttadeildar Þórs,“ segir í tilkynningu.
Bjarni Sigurðsson formaður deildarinnar segir mikinn áhuga á íþróttinni. Nú þegar eru 130 krakkar skráðir í valið en deildin getur tekið á móti 160 krökkum. Bjarni segir að nemendur geti á næstu tveim vikum breytt um val svo það er alls ekki útilokað að fleiri eigi eftir að bætast í hópinn.
Aðstaða rafíþróttadeildarinnar er í stúkunni við Þórsvöll en undanfarið hafa félagar í deildinni unnið að því að setja upp tölvur og tilheyrandi búnað.Þegar er búið að setja upp 20 tölvur og á næstu dögum verði settar upp 20 pc tölvur til viðbótar. Síðar munu verða settar upp Playstation5 tölvur en þær hafa ekki enn verið gefnar út.
Bjarni segir í samtali við heimasíðu Þórs að á næstu dögum verið auglýst námskeið og æfingar fyrir hinn almenna iðkanda og hann á von á að starfsemi deildarinnar verði lífleg enda mikill áhugi á rafíþróttum í þjóðfélaginu.
Þeir sem vilja taka þátt í starfinu með einum eða öðrum hætti geta sett sig í samband við deildina í gegnum netfangið rafithrottir[at]thorsport.is
UMMÆLI