Frjálsíþróttakappinn Kolbeinn Höður Gunnarsson er heldur betur að gera það gott þessa dagana en hann stundar nú íþrótt sína samhliða námi í University of Memphis í Bandaríkjunum.
Kolbeinn Höður sló 27 ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar á dögunum þegar hann hljóp 200 metra hlaup á 20,96 sekúndum á móti í Memphis. Íslandsmet Jóns Arnars var 21,17 sekúndur og sett 6. júní 1996.
Kolbeinn var svo hársbreidd frá því að slá glænýtt Íslandsmet sitt um nýliðna helgi þegar hann hljóp 200 metrana á 20,99 sekúndum. Það skilaði honum þriðja sæti á Joe Walker boðsmótinu í í Mississippi. Vísir greinir frá.
Hinn 22 ára gamli Kolbeinn er uppalinn á Akureyri en færði sig um set og keppti fyrir Fimleikafélag Hafnarfjarðar áður en hann hélt út til Bandaríkjanna.
UMMÆLI