100 ára gömul frásögn ferðamanns af rafvæðingu Akureyrar

100 ára gömul frásögn ferðamanns af rafvæðingu Akureyrar

Öld er liðin frá dvöl amerísks ævintýramanns á Akureyri. Maðurinn hét James Norman Hall. Hann kom til bæjarins í sumarlok árið 1922 og hugðist skrifa bók um Ísland. James dvaldi í bænum um nokkurra mánaða skeið, blandaði geði við bæjarbúa og upplifði merkilega atburði í bænum og nágrenni hans. Bókin kom aldrei út en skrif hans á meðan hann dvaldist í bænum hafa varðveist.

Meðal þess sem James varð vitni að og skráði í bækur sínar var þegar Akureyringar fengu rafmagn laugardaginn 30. september. Þannig eru 100 ár liðin frá þessum merkilega viðburði í sögu bæjarins og upplifun aðkomumannsins af honum. Norðurorka fagnaði upphafi rafmagnsframleiðslu og dreifingu fyrr í mánuðinum með sérstakri afmælisdagskrá í Hofi.

Sjálfsagt eru ekki margar samtímaheimildir til sem fanga augnablikið þegar Akureyringar upplifðu dásemdir birtunnar sem ljósaperan veitti þeim síðla dags í lok september 1922. Hvað þá séð með augum aðkomumanns sem þekkti vel til ljósadýrðar í Ameríku. Frásögn eins og sú sem James Norman Hall færði til bókar er því ómetanleg. Hér verður drepið niður í skrifum James Norman Hall. Íslensk þýðing er í höndum Sigurður Þórarinssonar en hún er frá árinu 1976.

„Þegar ég sneri aftur heim til Akureyrar þetta kvöld, hafði himinninn hulizt hálfgagnsæjum skýjafellingum, sem virtust verða til úr engu. Fyrstu stjörnurnar lýstu gegnum þær, en áður en ég var kominn hálfa leið í bæinn, var farið að snjóa, fyrsta snjó haustsins á láglendi, stórum flygsum, og enn var enginn andvari, er bærði þær. Þeim fjölgaði æ hraðar, jörðin huldist hvítu lagi eins til tveggja þumlunga þykku. Síðast svifu niður gagnsæjar, flipóttar flögur. Það var dásamlegt að sjá fjallatindana koma fram, er élinu létti, skýrt teiknaða og ennþá sveipaða daufri aftanglóð.

Ég hélt niður móana og niður á veginn, er lá til bæjarins. Rökkrið var orðið að myrkri, áður en ég komst niður á hjallann upp af bænum. Þaðan sá ég, að merkileg breyting hafði á orðið. Öll hús í bænum voru uppljómuð innan frá og ekki til sá gluggi, að ekki varpaði hann mynd sinni á snjóinn. Það rifjaðist þá upp fyrir mér, að það átti að ræsa vatnsrafstöðina þetta kvöld. Það var búið að tala um þetta í marga daga. Hótelstýran mín, rakarinn, bóksalinn, póstmeistarinn, allir höfðu í hverju samtali komið inn á þetta: ,,En þegar við fáum nýju raflýsinguna . . .“ Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, hversu mikils virði þetta var fólki svo nærri heimskautsbaug. Hingað til hafði verið mjög dimmt í bænum um nætur. Steinolía er dýr hér, því að hún er langt að flutt og olíulampaljós varð að spara. Nú gátu allir notið ljóssins, náðargjafar vatns, er féll af fjöllum ofan.

Ég leit inn í tóbaksbúðina, sem var böðuð í ljósi. Gamla sölukonan var ekki langt frá því að verða málug í gleði sinni. „Að hugsa sér,“ sagði hún, „að við skulum hafa lifað í myrkri allar þessar löngu vetrarnætur. Sjáðu, það þarf aðeins að hreyfa þennan hnapp,“ og hún sýndi mér, hvernig þetta gekk til. Öll börn í bænum höfðu safnazt saman fyrir framan járnvöruverzlun, þar sem mörgum gerðum af ljósakrónum, sem kveikt hafði verið á, var stillt út til sölu. Feður og mæður gengu fram og til baka framan við hús sín og virtust vart trúa því, að þetta væru þeirra eigin hús. Í stað daufa olíulampans, sem verið hafði í bókabúðarglugganum, var nú komið rafljós, svo að auðvelt var að lesa bókatitlana.“

Heimild: Grenndargralið

Í hlaðvarpsþættinum Amerískur ævintýramaður á Akureyri – fyrri hluti er dvöl James Norman Hall á Akureyri gerð góð skil. Í framhaldsþætti sem nú má nálgast á hlaðvarpsveitu Sagnalistar segir af ferð ævintýramannsins upp á hálendið til að verða vitni að eldgosi og heimsókn hans í Svartárkot í Bárðardal.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó