NTC

„Verkefni sem við vinnum frá hjartanu“

Akureyrska hljómsveitin Volta gefur um helgina út sína fyrstu plötu, Á nýjan stað. Útgáfutónleikar verða haldnir í Samkomuhúsinu á Akureyri laugardaginn 3. febrúar kl. 20:00.

Hljómsveitin hefur verið starfandi frá árinu 2015 og unnið hefur verið að gerð plötunnar frá því síðastliðið haust. „Lögin á plötunni eru öll frumsamin en eru þó misgömul, sum hafa verið í vinnslu í mörg ár en önnur eru glæný,“ segir Aðalsteinn Jóhannsson, bassaleikari hljómsveitarinnar. „Þetta er verkefni sem við vinnum frá hjartanu, textarnir eru mjög persónulegir og mikil vinna er lögð í hvert lag.“

Útgáfutónleikarnir verða haldnir næstkomandi laugardag og þar verður platan flutt í heild sinni. „Það verður skemmtilegt að spila í Samkomuhúsinu, það er hús með sál og við hlökkum mikið til laugardagsins. Þetta er verkefni sem við höfum unnið nokkuð lengi að og það verður frábært að geta deilt afrakstrinum með öðrum.“

Aðalsteinn segir ekki auðvelt að gefa út plötu í dag þar sem sala hefur dregist mjög saman á síðastliðnum árum. „Okkur finnst samt mikilvægt að gefa lögin út en ekki hanga bara inni í æfingarhúsnæði án þess að senda nokkuð frá okkur. Við höfum líka bara svo gaman af þessu, það er fátt skemmtilegra en að búa til tónlist og æfa í góðum félagsskap.“

Miðasala á tónleikana fer fram á mak.is og við innganginn.

 

VG

UMMÆLI

Sambíó