Tjaldsvæðin á Akureyri fylltust

Tjaldsvæðið að Hömrum er töluvert þétt setnara í dag en á þessari mynd. Mynd: tjalda.is

Einmuna veðurblíða hefur ríkt á Akureyri undanfarna daga og er útlit fyrir að það sama verði upp á teningnum fram yfir helgi. Íslendingar elta gjarnan veðrið yfir sumartímann og í gærkvöldi var ekki hægt að taka við fleiri gestum á tjaldsvæðum bæjarins, við Þórunnarstræti né að Hömrum við Kjarnaskóg.

Lokað var fyrir gestakomur um klukkan 21 þar sem bæði svæðin voru þá orðin fullsetin að því er fram í frétt Vísis.

Kemur jafnframt fram að annar eins fjöldi hafi vart sést frá árinu 2004 en talið er að um 3000 manns dvelji nú á tjaldsvæðunum tveimur.

Ekki er útilokað að hægt verði að komast að á tjaldsvæðunum í dag því Ásgeir Hreiðarsson, starfsmaður hjá útilífs- og umhverfismiðstöð skáta segir í samtali við Vísi að alltaf sé einhver hreyfing á fólki en hvetur jafnframt fólk til þess að hringja á undan sér ellegar eigi það á hættu að koma að lokuðum dyrum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó