Þrír nemendur MA hlutu styrk úr afreks- og hvatningasjóði Háskóla Íslands

Menntaskólinn á Akureyri

Þrír stúdentar frá MA hljóta á þessu ári styrk úr afreks- og hvatningasjóði Háskóla Íslands. Þeir eru Atli Fannar Franklín, Erla Sigríður Sigurðardóttir og Snæþór Aðalsteinsson.

Styrkjum var nú úthlutað úr sjóðnum í 10. sinn. Alls 28 stúdentar úr 16 framhaldsskólum hlutu styrk, stúlkur í meirihluta, alls 18. Styrkirnir eru veittir fyrir afburðaárangur á stúdentsprófum og önnur mikilvæg störf tengd námi og skóla. Styrkurinn í ár nemendur 375 þúsundum króna.

Atli Fannar brautskráðist í vor með ágætiseinkunn og hyggur á nám í stærðfræði og tölvunarfræði. Hann hefur tekið ríkan þátt í keppnum í eðlisfræði, forritun og stærðfræði og er í liði Íslands á Ólympíuleikum í stærðfræði í sumar.

Erla Sigríður var dúx í vor og hefur innritast í nám í læknisfræði. Hún hefur verið mjög ötul í félagsstarfi og stundað nám í píanóleik og harmoníkuleik, getið sér gott orð í keppni í tungumálum og raungreinum og er nú öðru sinni í ólympíuliðinu í eðlisfræði

Snæþór var dúx í fyrra og fór til Danmerkur þar sem hann stundaði nám í lýðháskóla fyrri hluta vetrar. Hann vann að margvíslegum náttúrfræðiverkefnum meðfram námi í MA og hefur getið sér gott orð sem hlaupari, hefur meðal annars verið gullverðlaunahafi í Jökulsárhlaupinu. Hann hyggur á nám í líffræði.

Á þeim 10 árum sem Afreks- og hvatningasjóðurinn hefur starfað hafa einn til þrír stúdentar úr MA jafnan hlotið styrki hvert ár.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó