Prinsessur – hin fámenna stétt

Inga Dagný Eydal skrifar:

Nýlega rakst ég á rannsókn sem var lokaverkefni Huldu Maríu Magnúsdóttur til meistaragráðu í alþjóðasamskiptum. Rannsóknin ber heitið „Sterkar stelpur eða staðalímyndir” og fjallar um endurreisnarprinsessur Disney, í ljósi femínisma, hnattvæðingar og dægurmenningar. Þar skoðar hún Hulda María þessar nýju prinsessur sem orðið hafa fyrirmynd stelpna um heim allan, prinsessur sem eru sterkari og hugrakkari og óhlýðnari en hinar hefðbundnu gömlu prinsessur og láta sig dreyma um að gera ýmislegt fleira en áður þekktist í ævintýrum. Þær eru reyndar ennþá ungar, grannar og fallegar og uppfylla þannig staðalímyndir (nýtt innihald í gömlum umbúðum) en hafa þó ýmislegt til brunns að bera sem hinar eldri auðsveipu og hlýðnu prinsessur höfðu ekki (reyndar er rannsóknin frá því fyrir Önnu og Elsu sem hefðu þó sómt sér vel í nýja hópnum). Þær eru sjálfstæðar og sterkar konur og sem slíkar mun betri fyrirmynd en forverar þeirra.

 

Meira að segja alvöru prinsessur eru að þróast með nýjum tímum og er Meghan Markle gott dæmi um hina nýju prinsessu (hertogaynju reyndar) sem er sjálfstæð, útivinnandi, frjáls og hugrökk og sem slík ágæt fyrirmynd en vissulega uppfyllir hún líka staðalímynd hinnar grönnu, fallegu ævintýraprinsessu og líklega er tími sjálfstæðis og frjálsræðis í hennar lífi, liðinn við það að giftast hinum glaðbeitta breska prinsi. Að hætti annarra prinsessa verður lífi hennar varið í það að fæða manninum sínum börn, veifa til almúgans og stunda góðgerðarstarfsemi- lengra nær nútíminn ekki.

Við fullorðið fólk erum auðvitað ábyrg fyrir því hvaða fyrirmyndir við berum á borð fyrir dætur okkar. Prinsessur eru reyndar afskaplega fámenn stétt og því má undrum sæta að einmitt þær skuli ennþá verða fyrirmyndir stelpna.

Femínistar hafa reyndar verið ötulir við að leggja áherslu á nýjar fyrirmyndir stelpna. Lögreglukonur, slökkviliðskonur, vísindakonur, geimfarakonur og fleiri stéttir eru þar ofarlega á blaði en gallinn er kannski sá að þessar stéttir eru líka fámennar og alltaf hætt á að þar verði ein og ein ofurhetja sett á stall sem fyrirmynd. Kannski erum við þannig að leggja áherslu á að sterkar stelpur séu einungis þær sem fara ótroðnar slóðir, þær sem verða frægar, standa upp úr fjöldanum og eru einstakar.

Ég þekki fullt af sterkum konum og á mér nokkrar fyrirmyndir sem í mínum huga gætu sem best verið fyrirmyndir stelpna um allan heim. Í þeim hópi eru hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, kennarar og ófaglærðar einstæðar mæður, svo eitthvað sé nefnt og fæstar þeirra hafa prýtt síður tímarita eða vakið almenna athygli fólks. Þær eru þó margar hverjar ótrúlega sterkar stelpur. Þær vinna kraftaverk og bjarga mannslífum á hverjum degi. Þær hafa oftast ekki mikinn tíma aflögu til að halda sér til eins og prinsessur, en eru ótrúlega fallegar vegna þess að í augunum þeirra er styrkur sem kemur beint úr fallegri sál.

Þessar konur bogna oft undan álagi og aðstæðum tilverunnar en þær brotna ekki. Þær halda áfram að sinna, hjúkra, skeina, hjálpa, kenna og annast um annað fólk. Þær hafa helgað líf sitt öllu því sem er gott.

Þær eru alvöru prinsessur tilverunnar og löngu kominn tími á að hefja þær til vegs og virðingar þannig að þær verði fyrirmynd fyrir allar stelpur sem vilja verða sterkar.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.
Pistillinn birtist upphaflega á raedaogrit.wordpress.com

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó