NTC

Níu nýjum eftirlitsmyndavélum komið fyrir á Akureyri

Úr miðbæ Akureyrar

Til stendur að koma fyrir níu nýjum eftirlitsmyndavélum á Akureyri. Var ákvörðunin tekin eftir umræðu sem skapaðist í kjölfarið af hvarfi Birnu Brjánsdóttur síðastliðinn vetur. Uppsetning á myndavélunum og rekstur á þeim verður unnið í samstarfi Akureyrarbæjar, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og Neyðarlínunnar. Fjallað var um málið í tíufréttum RÚV í gærkvöldi.

Af þessum níu myndavélum verða fimm í miðbænum. Lögreglan á Akureyri lagði fram tillögur að staðsetningu vélanna en utan þeirra fimm sem verða í miðbænum verður ein myndavél við gatnamót Borgarbrautar og Hlíðarbrautar, ein við Vaðlaheiðargöng, ein við flugvöllinn og ein við norðurenda bæjarins.

Fyrir eru tvær eftirlitsmyndavélar á vegum bæjarins í miðbænum, á Sýslumannshúsinu og við Strandgötu, en þær verða endurnýjaðar og þrjár til viðbótar settar upp. Talsvert fleiri myndavélar eru í bænum, á vegum fyrirtækja og einkaaðila.

Í viðtali við RÚV segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, að myndavélarnar verði einungis notaðar í rannsóknarskyni vegna mála sem upp koma og á engan anna hátt en aðeins lögreglan mun hafa aðgang að upptökunum. Akureyrarbær sér um kaupin á vélunum sem kosta á aðra milljón króna.

Hér má sjá hvar í bænum myndavélunum níu verður komið fyrir. Mynd: Skjáskot af vef RÚV

Sambíó

UMMÆLI