NTC

Kött Grá Pjé með námskeið í skapandi skrifum

screen-shot-2015-06-10-at-00-14-35_670Listamaðurinn og rapparinn Kött Grá Pjé verður með námskeið í skapandi skrifum og skapandi hugsun laugardaginn 8. október. Námskeiðið er fyrir fólk á aldrinum 18-25 ára. Það er hluti af samvinnuverkefninu Ungskáld sem Amtsbókasafnsins, Akureyrarstofu, Ungmenna-Hússins í Rósenborg, Verkmenntaskólans á Akureyri, Menntaskólans á Akureyri, Framhaldsskólans á Húsavík og Menntaskólans á Tröllaskaga standa fyrir.

Ungu fólki á aldrinum 16-25 ára á Akureyri og nágrenni, í Fjallabyggð og Norðurþingi er boðið að taka þátt í Ungskáld. Hægt er að senda texta á íslensku s.s. ljóð, sögur, leikrit og fleira á netfangið ungskald@akureyri.is.  Síðasti dagur til að skila texta er fimmtudagurinn 10. nóvember. Veitt verða peningaverðlaun fyrir þrjá bestu textana; 1. verðlaun 50 þúsund, 2. verðlaun 30 þúsund og 3. verðlaun 20 þúsund.

Námskeiðið er haldið í Menntaskólanum á Akureyri. Það hefst klukkan 13 á laugardaginn og stendur í þrjá klukkutíma. Námskeiðið er gjaldfrjálst en skráning fer fram á netfanginu ungskald@akureyri.is.

Kött Grá Pjé eða Atli Sigþórsson er fæddur og uppalinn Akureyringur. Hann hefur vakið mikla athygli hér á landi fyrir tónlist sína og textagerð og þá sérstaklega eftir að hann rappaði með hljómsveitinni Úlf Úlf í laginu Brennum allt. Hann er gífurlega vinsæll á samfélagsmiðlum enda þekktur fyrir að fara sínar eigin leiðir og lætur ekki stjórnast af reglum samfélagsins.

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó