Í nýútkominni skýrslu frá Evrópsku vímuvarnarstofnuninni (European Monitoring Centre for Drugs and Drug Addiction) kemur fram að íslenskir unglingar eru líklegastir allra evrópskra unglinga til að hafa reykt kannabis síðastliðið eitt ár.
Skýrslan sem kom út í síðustu viku byggir á svörum 96.043 unglinga frá 35 löndum. Á Íslandi hefur Rannsóknasetur forvarna við Háskólann á Akureyri séð um að leggja spurningalistann fyrir nemendur í 10. bekk. Könnunin leiddi í ljós að 14,5% íslenskra drengja og 12,7% íslenskra stúlkna höfðu reykt kannabis á síðustu 12 mánuðum.
Eins og áður segir koma íslensk ungmenni verst út í rannsókninni og skora t.a.m. mun verr en hin Norðurlöndin. Svíar koma þar næstir á eftir en þar höfðu 9.9% drengja og 6.4% stúlkna neytt kannabis á síðustu 12 mánuðum. Hlutfallið var aðeins lægra í Noregi og Danmörku en Færeyjingar koma best út; þar höfðu aðeins 1.5% unglinga notað efnið.
„Þetta er í samræmi við þær niðurstöður sem við höfum séð undanfarin ár,” segir Ársæll Arnarsson prófessor í sálfræði við Háskólann á Akureyri á heimasíðu skólans. Ársæll bendir þó á að verulega hafi dregið úr drykkju og reykingum íslenskra ungmenna á undanförnum árum. ,,Þetta misræmi milli minnkandi tóbaksreykinga og áfengisdrykkju annars vegar og aukinna kannabisneyslu hins vegar þarf ekki að koma á óvart. Erlendar rannsóknir hafa gjarnan sýnt slíkt mynstur,” bætir Ársæll við.
UMMÆLI