Hetjurnar hljóta styrk frá Color Run

Magni Ásgeirsson, skipuleggjandi The Color Run á Akureyri, Svavar Máni Gunnarsson, 12 ára Hetja og Monika Margrét Stefánsdóttir, gjaldkeri hjá Hetjunum

Hetjurnar, félag langveikra barna á Norðurlandi, var eitt þeirra félaga sem hlutu styrk úr Samfélagssjóði The Color Run og Alvogen. Á hverju ári síðustu þrjú ár hefur samfélagssjóðurinn stutt við bakið á góðgerðarfélögum sem láta sig varða réttindi og velferð barna með alls 16 milljón króna styrkjum. Í ár eru það Barnaheill, Vímulaus æska, Vinakot og Hetjurnar sem njóta góðs af hlaupagleði Íslendinga.

Á meðan fyrstnefndu félögin starfa öll á landsvísu, starfar félagið Hetjurnar fyrir foreldra langveikra barna á Norðurlandi og var sérstaklega valið vegna þess að litahlaupið fer fram á Akureyri í fyrsta sinn í ár. „Hetjurnar er stuðningshópur fyrir aðstandendur langveikra barna þar sem tilgangurinn er að styrkja börnin til tómstunda, fræðslu, fara í sumarfrí og komast í almenna afþreyingu á borð við að fara í bíó og leikhús saman. Við erum þakklát The Color Run fyrir að koma norður með hlaupið í ár og án efa eiga börnin okkar eftir að njóta þess að taka þátt í þessari miklu gleði,“ segir Linda Rós Daðadóttir, formaður Hetjanna.

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen segir fyrirtæki sitt virkilega stolt af því að standa við metnaðarfull verkefni sem tengjast réttindum og velferð barna. „Með samfélagssjóðnum höfum við styrkt fjölda félaga um alls 16 milljónir króna á síðustu þremur árum. Það er virkilega gaman og spennandi að taka þátt í þessu og standa við bakið á þeim félögum sem hafa notið styrkjanna,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen.

„Frá stofnun Samfélgassjóðsins erum við nú búin að styrkja átta félög og þykir okkur mikilvægt að láta gott af okkur leiða til samfélagsins með þessum hætti. Við viljum senda þakkir til þeirra sem hafa hlaupið undanfarin ár. Annars væri þetta ekki gerlegt, segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi.

Litahlaupið fer fram í miðbæ Akureyrar næstkomandi laugardag og fer miðasala fram á midi.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó