NTC

Harðar deilur milli Þórs/KA og KA vegna ráðstöfunar 2 milljóna króna

thorka_2011

Þór/KA hefur verið í fremstu röð íslenskrar kvennaknattspyrnu á undanförnum árum.

Forsvarsmenn kvennaliðs Þórs/KA og forsvarsmenn knattspyrnudeildar KA deila nú hart vegna ráðstöfunar á rúmlega tveim milljónum króna. Ítarlega er fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Samkvæmt heimildum Kaffisins hafa þessar deilar staðið yfir undanfarnar vikur og þverneitar KA að láta þessar rúmu tvær milljónir króna renna í starf Þórs/KA en um er að ræða pening sem forsvarsmenn Þórs/KA telja sig eiga rétt á að nota í starfsemi kvennaliðsins.

Með því að smella hér má sjá frétt af vef Morgunblaðsins.

Forsaga málsins er sú að í kjölfar árangurs Íslands á EM í Frakklandi úthlutaði KSÍ, Knattspyrnusamband Íslands, miklum fjármunum til aðildarfélaga sinna. KA fékk rúmlega 11 milljónir og Þór rúmar 9 milljónir. Upphæðirnar til hvers félags byggðust á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildum KSÍ undanfarin þrjú ár.

Í frétt Morgunblaðsins er vitnað í bréf Nóa Björnssonar til KA en eins og flestir Akureyringar vita hefur Nói verið burðarás í starfi kvennaliðs Þórs/KA undanfarin ár. Hann fer í bréfinu ítarlega yfir fjárúthlutun KSÍ og segir að í útreikningum sambandsins komi fram að fjórar milljónir séu tilkomnar vegna meistaraflokks Þórs/KA. Tvær milljónir hafi farið til hvors félags. Ein og hálf milljón vegna árangurs kvennaliðsins undanfarin þrjú ár og hálf milljón til hvors félags í bætur vegna fækkunar áhorfenda á meðan á EM í Frakklandi stóð.

Þetta eru forráðamenn KA ekki tilbúnir að samþykkja og hyggjast nota umræddan pening til uppbyggingar á félagssvæði KA við Dalsbraut.

Kaffið hefur rætt við fjölmarga aðila innan kvennaknattspyrnunnar á Akureyri vegna málsins á undanförnum dögum og er óhætt að segja að margir séu ósáttir með aðkomu KA að málinu.

Sjá einnig

Þór/KA endaði í topp 4 níunda árið í röð

,,Ekki í boði að keyra á milli með karlaliðið“

VG

UMMÆLI

Sambíó