NTC

Borgaðu og hættu þessu tuði

María Björk Guðmundsdóttir skrifar

Ég fékk reikning í heimabankann um daginn, fékk líka nett sjokk, rúmlega 50.000 kr. takk fyrir, hunda- og kattaleyfisgjöld vegna ársins 2017. Mundi svo eftir að ég hafði farið með hvolpana á námskeið og þá get ég fengið 50% afslátt af reikningnum en þó aðeins í þetta skipti og aðeins einu sinni fyrir hvern hund. Ok, munar samt um 10.000 kr. ekki satt? Ég borgaði reyndar hátt í 40.000 kr. fyrir námskeiðin….. En svo kom þessi pirringur, sami gamli pirringur og kemur á þessum árstíma þegar leyfisgjöldin koma í hús. Fyrir hvað er ég að borga allan þennan pening?

Sko, þið sem þekkið mig vitið að ég er afskaplega ferköntuð og löghlýðin kona, gef alltaf stefnuljós, fer yfir á gangbraut, borga reikninga tímanlega og svo framvegis. Þegar ég fékk minn fyrsta hund vissi ég nefninlega að það á að skrá hundinn sinn hjá sveitarfélaginu og borga tilheyrandi gjöld. Það hef ég gert í hvert skipti sem nýr hundur kemur á heimilið og þegar það kom í reglugerð hér um árið að skrá kettina var ég eflaust með þeim fyrstu til að skrá þá.

Í lögum um hollustuhætti segir: „Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.“ Þegar ég hóf störf sem formaður Félags hundaeigenda á Akureyri árið 2012, var eitt af mínum fyrstu verkum að biðja um sundurliðun á því í hvað hundaleyfisgjöldin fara. Það tók lygilegan tíma að fá svar og þegar það loksins barst var það sundurliðun frá árinu 2010 vegna ársins 2009. Stjórnin átti nokkra fundi með bænum næstu árin en aldrei var hægt að koma með nýrri sundurliðun, flókið mál og ekki í forgangi voru svörin. Frábært, við borgum bara glöð á meðan, ekki satt, ekki eins og okkur komi eitthvað við í hvað gjöldin fara.

Annars er alveg stórmerkilegt yfirhöfuð að nokkur maður nenni að standa í því að skrá hundinn sinn, það er nefninlega alls ekki auðvelt verk. Eftir mikið kvabb og tuð frá stórn Félags hundaeigenda á Akureyri hefur bærinn loksins útbúið pdf skjal sem hægt er að prenta út af heimasíðunni þeirra, áður þurfti að sækja eyðublað í tvíriti. Fyrst þarf að fara til tryggingafélags og kaupa ábyrgðartryggingu, án hennar er ekki hægt að skrá hund. Svo þarftu að hafa gilda bólusetningu og ormahreinsun og örmerkja hundinn þinn (auðvitað alltaf, óháð hvort þú skráir hundinn eða ekki, fylgir því að vera ábyrgur hundaeigandi). Ef þú býrð í fjölbýlishúsi og ert ekki með sérinngang þarftu leyfi frá öðrum íbúum hússins. Samkvæmt lögum um fjöleignarhús þarf 2/3 samþykki eigenda íbúða í viðkomandi stigagangi til að fá samþykki fyrir viðkomandi gæludýri. Það er alveg hægt að skrifa heila ritgerð um hve erfitt þetta samþykktarferli er. Þessi gögn þurfa svo öll að fara til bæjarins og svo færðu greiðsluseðil með skráningargjaldi og leyfisgjaldi og eitt spjald til að hengja í hálsól, með leyfisnúmeri hundsins. Innifalið í þessu, fyrir utan spjaldið, er EKKERT, verði þér að góðu. 1 – 0 fyrir óskráðum, þeir þurfa ekki að standa í þessu. Bærinn þarf að vita hvort hundurinn þinn sé ekki örugglega ormahreinsaður einu sinni á ári og þá þarftu að fara til dýralæknis, borga komugjald fyrir hvert og eitt dýr og kaupa svo ormalyf. Þá sendir dýralæknirinn þinn staðfestingu til bæjarins um að þú sért í góðum málum. Þeir sem ekki eru með skráða hunda nægir að kaupa bara ormalyfið. 2 – 0 fyrir óskráðum. Einu sinni var það þannig að ef hundur týndist og var fangaður af dýraeftirlitinu þá þurftu þeir með óskráðu hundana að borga helmingi hærra gjald til að leysa hundinn út, núna borga allir jafnt. 3 – 0 fyrir óskráðum.

Talandi um dýraeftirlitið……. fyrir hverja er það eiginlega? Er það fyrir hundaeigendur eða er það kannski frekar fyrir þá sem eiga ekki hunda og finna sér þörf til að kvarta yfir þeim? Einhver verður jú að taka við svoleiðis kvörtunum og ég myndi ekki nenna að hlusta á svoleiðis tuð nema að fá borgað fyrir það…… djók. En í alvöru, ekki týna hundinum þínum nema bara á milli 8 og 16 á virkum dögum, það er nefninlega þá sem dýraeftirlitið er opið. Ja, nema að það sé einhver á lögreglustöðinni sem getur aðstoðað, þeir eru oft til í það þó það sé alls ekki í þeirra verkahring og þeir hafa ekki alltaf tímann í það. Reyndar hefur það sýnt sig að með komu samfélagsmiðla er alltaf minni og minni þörf fyrir dýraeftirlit, þ.e.a.s. í þeim skilningi að handsama hunda. Hundur týnist, mynd á Facebook og hann er oftast nær kominn heim fljótlega. Það er varla nokkur hundaeigandi sem hringir í eftirlitið nema hann sé hreinlega tilneyddur til þess.

En aftur að spurningunni: „Í hvað fara þessir peningar?“ Samkvæmt sundurliðuninni 2009 voru 455 hundar skráðir, innheimt gjöld voru 5.596.746 kr. en raunkostnaður er sagður 5.742.494 kr. Stærsti hlutinn fór í launakostnað og bifreið starfsmanns. Hluti fór í auglýsingar, hönnun og uppsetningu skilta og hundamerki. Þessi skilti sem um ræðir eru líklegast 99% bannskilti, lausaganga bönnuð, hirðið upp eftir hundana, hundar ekki leyfðir og svo framvegis. Næst stærsti hlutinn var skrifstofuvinna framkvæmdadeildar; móttaka umsókna, skráninga, kvartana, ábendinga, aðvaranna, áminninga og fl. Allt saman jákvætt hér, ekki satt? Félag hundaeigenda á Akureyri fundaði með bænum árið 2015 og lagði til nokkur atriði sem „gulrót“ fyrir hundaeigendur og hvatningu til að skrá hundana. a) Ormahreinsun innifalin í gjaldi b) Ábyrgðartrygging innifalin í gjaldi c) 50% afsláttur af gjaldi vegna námskeiða út ævitíma hunds (eða afsláttur í hvert skipti sem hundur fer á námskeið) d) Systkinaafsláttur í einhverju formi. Vel var tekið á þessum hugmyndum en ekkert af þessu hefur komið til framkvæmda og reyndar engin svör borist, gjaldið var bara hækkað það ár og hefur farið hækkandi síðan.

Samkvæmt könnun MMR 7. maí 2016 kemur fram að hundar séu á 20% heimila í landinu og á 23% heimila á landsbyggðinni. Síðustu tölur sem ég fékk hjá bænum vegna ársins 2016 voru ca 554 skráðir hundar. Það er nokkuð ljóst að það eru mun fleiri hundar hér í bæ. Ég er ekki alveg að kaupa útskýringu sem ég heyrði að ef fleiri myndu skrá hundana sína myndu gjöldin lækka. Af hverju er þá ekkert gert í því? Það er löngu orðið ljóst af þessum pistli mínum að það borgar sig ekki að skrá hund, það kostar mun meira og þú „græðir“ ekkert á því nema auðvitað að geta sagt að þú sért að fara eftir lögum og reglum. Það er ekkert eftirlit í þeim skilningi og það er engin gulrót fyrir þá sem borga og engin refsing fyrir þá sem borga ekki. Þetta er bara meingallað kerfi. Ég er þó ekkert að hvetja fólk til að skrá ekki hundana sína, það verður hver og einn að taka ákvörðun fyrir sig. Kerfið er gallað, hvort sem við borgum eða ekki.

Þegar bæjarstjórnarkosningar voru síðast fór ég á allar kosningaskrifstofur og ræddi hundamál í samfélaginu. Ég fékk misgóðar móttökur. Einn flokkur vildi bara ræða hundaskít, ég gaf nú bara skít í þá, ekki bókstaflega samt. Flestir flokkarnir voru sammála um að þetta væri nú ekki gott fyrirkomulag en enginn var með úrbætur eða lausnir. Einn flokkur var þó alveg með þetta á hreinu, annað hvort ættu allir að borga eða enginn og ef ekki væri hægt að innheimta þetta gjald af öllum ætti einfaldlega að leggja gjaldið niður. Ég bíð spennt eftir að þetta rætist.

P.s. svo við höfum það alveg á hreinu, ég hef átt mjög gott samstarf og samskipti við þá starfsmenn sem vinna að þessum málum hjá bænum og þeir standa sig mjög vel í sínum störfum. Það er kerfið sjálft og þeir sem stjórna sem ég er ósátt við.

 

Höfundur er fyrrverandi formaður Félags hundaeigenda á Akureyri og hefur samviskusamlega borgað leyfisgjöld af dýragarðinum sínum í mörg ár.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó