Ákvörðun tekin af illri nauðsyn

Arnþór Jónsson formaður SÁÁ

Undirbúningur er hafinn vegna lokunar á göngudeild SÁÁ á Akureyri. Lokun göngudeildarinnar er hluti af 100 milljóna niðurskurðsáætlun sem samtökin starfa nú eftir. Í tilkynningu frá SÁÁ kemur fram að göngudeild stofnurannir á Akureyri hafi ekki fengið framlög frá ríkinu í þrjú ár.

Arnþór Jónsson formaður SÁÁ segir að lokunin sé ekki æskileg og að SÁÁ telji að þvert á móti að mikil þörf sé fyrir að veita enn meiri og fjölþættari þjónustu á Akureyri sem og landinu öllu.

„Okkur þykir afar miður að þurfa að grípa til svona aðgerða. Ásóknin í meðferð er meiri en áður og biðlistinn á Vogi kominn yfir 400 manns, lengri en nokkru sinni. Þessi ákvörðun var tekin af illri nauðsyn. Það er ekkert ríkisframlag til reksturs göngudeilda SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri og enginn samningur við Sjúkratryggingar Íslands frá 2014 eftir að sjúkratryggingar sögðu sjálf upp þágildandi samningi.“

Starfið verið farsælt og gott

„Við hófum rekstur deildarinnar árið 1993 og höfum sinnt öllu Norðurlandi síðan, eða í aldarfjórðung. Þjónustan hefur ætíð verið vel nýtt, og starfið farsælt og gott,“ segir Arnþór.

Hann segir ákvörðunina ekki hafa verið auðvelda og að hún hafi ekki verið tekin í fljótheitum.

„SÁÁ er í mjög þröngri stöðu fjárhagslega núna og þarf að skera niður um 100 milljónir á árinu 2018, bara til að halda sjó. Stjórnvöld hafa haft allar upplýsingar um þessa stöðu í langan tíma.“

Arnþór telur líklegt að deildin muni loka á þessu ári. Hann segir SÁÁ hafa verið að skera niður undanfarin ár og að Akureyri sé ekki hluti af neinum sérstökum niðurskurði.

Hörður J. Oddfríðarson

Eftirfylgni eykur árangur

Hörður J. Oddfríðarson dagskrárstjóri SÁÁ á Akureyri telur að lokunin geti haft mikil áhrif á líf fólks með fíknisjúkdóma og aðstandendur þeirra á Akureyri.

„Göngudeildin á Akureyri hefur sinnt eftirfylgni við þá sem hafa verið að koma úr meðferð, en það hefur margsýnt sig að slík eftirfylgni eykur árangur af meðferð til mikilla muna. Á göngudeildinni hefur líka verið starfræktur meðferðarhópur þar sem hefur farið fram fræðsla og úrvinnsla,“ segir Hörður.

„Í nútíma samfélagi er nauðsynlegt að hafa slík úrræði til staðar því hluti fólks með fíknsjúkdóma getur nýtt sér slík úrræði, þó inniliggjandi úrræði þurfi alltaf að vera til staðar líka. Göngudeildin hefur sinnt viðtölum við fólk með fíknsjúkdóma og einnig boðið upp á stuðningstíma fyrir fólk sem er að bíða eftir meðferð og þá einstaklinga sem þurfa tímabundinn stuðning eftir meðferð. Þá má ekki gleyma að í göngudeildinni er þjónusta fyrir aðstandendur fólks með fíknsjúkdóma og afleitt að sú þjónusta leggist alfarið af.“

Hann telur að með lokun deildarinnar leggjist bein þjónusta fagfólks í fíknisjúkdómum af á Akureyri og verði ekki til staðar ef af lokun göngudeildar SÁÁ verður.

Sjá einnig:

„Þetta er nagli í kistuna hjá mörgum“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó